Isavia stefnir ríkinu og krefst bóta

Isavia ohf. mun á næstu dögum stefna ALC og íslenska …
Isavia ohf. mun á næstu dögum stefna ALC og íslenska ríkinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna tjóns sem fyrirtækið telur sig hafa orðið fyrir í innsetningarmáli flugvélaleigufélagsins. mbl.is/​Hari

Isavia krefur íslenska ríkið um 2,2 milljarða í bætur vegna tjóns sem fyrirtækið telur sig hafa orðið fyrir vegna úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness frá 17. júlí sl. í innsetningarmáli bandaríska flugvélaleigufélagsins ALC.

Á grundvelli úrskurðarins var Isavia gert að afhenda flugvél ALC sem kyrrsett hafði verið  vegna skulda leigutaka vélarinnar, WOW air. Þetta kemur fram í tilkynningu, en Kjarninn greindi fyrst frá málinu í morgun eftir að hafa fengið kröfubréf Isavia á hendur ríkinu afhent.

Einnig gerir Isavia bótakröfu á hendur ALC. Hún byggist fyrst og fremst á bótareglu aðfararlaga. Bótakrafan á hendur íslenska ríkinu byggist á ákvæðum dómstólalaga og 97. gr. aðfaralaga um ábyrgð héraðsdómara. 

„Þetta er ekki bara spurning um fjárhagslegt tjón heldur er þetta líka spurningum að fá úr því skorið hvernig eigi að beita þessari lagaheimild, kyrrsetningarheimild sem felst í  loftferðalögum til framtíðar. Ef fyrirliggjandi úrskurður stendur er okkur nauðugur einn sá kostur að kyrrsetja allar flugvélar flugrekenda í einu ef til skuldar kemur í stað þess að kyrrsetja eina fyrir heildarskuld. Við þurfum að fá það á hreint hvernig virkar. Að sjálfsögðu teljum við líka að það hafi bakast tjón,“ segir Guðjón Helgason upplýsingafulltrúi Isavia við mbl.is. 

Spurður hvort hann telji ekki eilítið óvenjulegt að Isavia, sem opinbert hlutafélag, sé að fara í mál við íslenska ríkið, eiganda sinn, segir Guðjón: „Við erum kannski svo sem ekkert að fara í mál við eiganda okkar sem slíkan, við erum að fara í mál við íslenska ríkið bara af því að íslensk löggjöf veitir þess leið fyrir einstaklinga og fyrirtæki til þess að sækja skaðabætur vegna rangra úrskurða. Isavia er að sjálfsögðu sjálfstæður lögaðili og við þurfum bara að standa vörð um hagmuni félagsins.“

Dómari hafi sýnt af sér „saknæma og ólögmæta háttsemi“

Í bótakröfu á hendur íslenska ríkinu kemur fram að talið er að „dómari við Héraðsdóm Reykjaness, sem heimilaði innsetninguna, sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi við úrlausn málsins. Það hafi dómari meðal annars gert með því að hunsa efnislega niðurstöðu Landsréttar varðandi kyrrsetningarákvæði loftferðalaga og með því að hafna kröfu Isavia um frestun réttaráhrifa úrskurðarins þannig að Landsréttur, og eftir atvikum Hæstiréttur, gætu tekið úrlausn héraðsdóms til endurskoðunar. Isavia telur blasa við í ljósi undirliggjandi hagsmuna að héraðsdómur hafi átt að taka þá kröfu Isavia til greina.“ Þetta segir í tilkynningu. 

Í kjölfar þess að umræddur úrskurður Héraðsdóms Reykjaness var kveðinn upp 17. júlí síðastliðinn gat ALC flogið vélinni, TF-GPA, á brott frá Keflavíkurflugvelli. Þar flaug í burtu sú trygging fyrir skuldum WOW air sem Isavia taldi sig hafa.

Um bótakröfu á hendur ALC segir „að þeim sem gerir kröfu um aðfarargerð, í þessu tilviki ALC vegna flugvélarinnar TF-GPA, beri að bæta tjón sem aðrir hafa orðið fyrir ef síðar er leitt í ljós að skilyrði hafi skort fyrir aðfarargerðinni. Telur Isavia að svo hafi verið í máli ALC vegna TF-GPA, enda hafi Landsréttur staðfest það í úrskurði sínum frá því í maí á þessu ári þegar hann leysti efnislega úr aðfararbeiðni ALC.“

mbl.is

Bloggað um fréttina