Segir áætlun Íslandsbanka „kjánalegt ofstæki“

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkssaksóknar hyggst hætta viðskiptum við Íslandsbanka vegna ...
Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkssaksóknar hyggst hætta viðskiptum við Íslandsbanka vegna áætl­un bankans um að hætta viðskipt­um við fjöl­miðla sem ekki stand­ist til­tek­in skil­yrði um kynja­hlut­föll viðmæl­enda og þátta­gerðarfólks. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari ætlar að færa viðskipti sín frá Íslandsbanka vegna nýrrar markaðsstefnu bankans þar sem horft verður til kynjahlutfalls innan fjölmiðla við kaup á auglýsingum. 

„Manneskjum með svo lélega dómgreind er ekki treystandi fyrir fé,“ skrifar Helgi í færslu á Facebook-síðu sinni. 

Hann segir jafnframt að bankanum ætti að þykja það sjálfsagt að hann kjósi að eiga ekki viðskipti við banka sem „gætir ekki betur að jöfnu hlutfalli kvenna og karla í hópi starfsmanna að það sé 60/40.“

Helgi segist gera sér grein fyrir því að hann finni kannski ekki banka með jöfn kynjahlutföll starfsmanna en að starfsmenn í öðrum bönkum hafi kannski dómgreind til að skilja að það er margt annað en kynferði sem ræður því hvaða starf fólk kýs sér og hvaða viðmælendur fjölmiðlar taka viðtöl við. 

„Það yrði kannski skrýtin útkoma ef menn ætluðu að taka viðtöl við sjómenn á sjómannadaginn og tryggja jöfn hlutföll eða starfsmenn á dekkjaverkstæðum. Svona mætti lengi telja. Ég efast um að fjölmiðlar velji út þessa fáu karlmenn sem eru hjúkrunarfræðingar, vilji þeir ræða störf hjúkrunarfræðinga,“ skrifar Helgi, sem segir að jafnrétti sé sjálfsagt en áætlun Íslandsbanka sé „kjánalegt ofstæki.“

Segir bankann ekki vera að beita viðskiptaþvingunum

Mikil umræða hefur skapast um ákvörðun Íslandsbanka í vikunni. Bjarni Bene­dikts­son, fjár­málaráðherra og formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, sagði að áætlunina koma sér spánskt fyr­ir sjón­ir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, spurði Bjarna á þinginu í vikunni hvort það væri ekki hálf óhugguleg þróun að rík­is­banki væri að hlutast til um dag­skrá fjöl­miðla og mannaráðning­ar og þar með fjár­magni sínu og afli. 

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, sagði í hádegisfréttum RÚV að það væri af og frá að viðskiptaþvinganir felist í nýrri markaðsstefnu bankans. Hún viðurkenndi þó að bankinn hefði mátt skýra málið betur.

mbl.is