Kristinfræði verði kennd á nýjan leik

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins.
Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég tel mikilvægt að kristinfræðikennsla verði aftur skyldunámsgrein í grunnskólum landsins. Kristin trú hefur verið mótandi afl í íslensku þjóðlífi í 1.000 ár. Saga og menning þjóðarinnar verður vart skilin án þekkingar á kristinni trú, siðgæði og sögu kristinnar kirkju.“

Þetta sagði Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, á Alþingi í dag þar sem hann kallaði eftir því að kristinfræði yrði aftur kennd í íslenskum grunnskólum. Rifjaði hann upp að kristinfræðikennslu hefði verið hætt 2008 þegar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og þáverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði verið menntamálaráðherra.

„Sérhvert þjóðfélag byggist á ákveðnum grundvallargildum. Uppeldishlutverk skólans er mikilvægt, ekki síst siðgæðisuppeldi. Skólum er ætlað að miðla slíkum gildum og í íslensku samfélagi eiga þau gildi sér kristnar rætur. Þrátt fyrir fjölmenningu á Íslandi á að taka tillit til þess hvaða trúarbrögð hafa verið ráðandi í mótun menningar okkar og samfélags.“

Birgir sagði menningarleg og samfélagsleg rök vera fyrir því að gera kristinfræði að skyldunámsgrein á ný. Eðlilegt væri að verja mestum tíma í fræðslu um þau trúarbrögð sem eru ríkjandi í samfélaginu, það er kristni. Fræðsla um önnur trúarbrögð væri einnig nauðsynleg svo hægt yrði að byggja brýr milli annarra trúarbragða, stuðla að virðingu og skilningi.

„Mannréttindadómstóll Evrópu segir að ef tiltekin trú skipi stóran sess í sögu og hefð lands þá standi ekkert í vegi fyrir því að byggja skólastarf á gildum þeim sem felast í trúnni. Í flestum Norðurlöndum er kristinfræðikennsla skilgreind sem hluti af almennri menntun. Grunnskólar í Danmörku byggja trúarbragðakennslu á kenningum dönsku þjóðkirkjunnar, siðfræði, biblíusögum og sögu kristninnar. Í Noregi segir að skólinn skuli byggja á grunngildum hins kristna arfs.“

mbl.is