Eldurinn kom upp á ferð

Frá vettvangi í gær.
Frá vettvangi í gær. mbl.is/Stefán Einar

„Það bendir allt til þess að þetta hafi verið eldsneytisbruni og hafi ekkert haft með rafhlöðuna að gera,“ segir Hjörtur Hafliðason, þjónustustjóri hjá Brimborg, um eldinn sem kom upp í Volvo XC90 bifreið við bensínstöð N1 við Hringbraut í gærdag.

Samkvæmt upplýsingum, sem blaðamaður mbl.is fékk á staðnum, flækti það slökkvistarf að um væri að ræða tengiltvinnbifreið með rafhlöðu. Það gekk engu að síður vel að slökkva eldinn og engin hætta var á ferðum.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu kom eldurinn upp á meðan bifreiðin var á ferð.

Um var að ræða bifreið sem var flutt notuð inn til landsins frá Bandaríkjunum og því ekki í gegnum Brimborg sem er umboðsaðili Volvo á Íslandi.

mbl.is