Stormur í dag og önnur lægð á leiðinni

mbl.is/Gúna

Gul viðvörun tekur gildi síðdegis en gengur í suðaustanstorm um landið suðvestanvert síðdegis, hvassast við fjöll. Búist við að verði hvassast undir Eyjafjöllum, á Kjalarnesi og við Hafnarfjall. Þar geta menn átt von á að meðalvindur gæti náð 25 m/s og hviður farið yfir 35 m/s.

„Svona vindur getur auðveldlega valdið vegfarendum vandræðum, einkum þeim sem taka mikinn vind á sig. Ekki mikil úrkoma með þessu og eins er hitinn nokkrum gráðum yfir frostmarki þannig að hálka á láglendi verður lítil sem engin. Lægir síðan um nóttina og á morgun en á sunnudag gera spár ráð fyrir næstu lægð en nýjustu spár gera ráð fyrir stormi þá líka og jafnvel heldur hvassara en í dag. Hins vegar mun henni fylgja mun meiri úrkoma, aðallega rigning en líkur eru á að bæði vindur og úrkoma fari yfir á nokkrum tímum yfir hádaginn,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofunni. 

Veðurhorfur í dag og næstu daga

Suðaustan 13-20 m/s um landið sunnan- og vestanvert í dag, en 18-25 m/s undir fjöllum og með suður- og vesturströndinni síðdegis. Suðaustan 5-13 m/s norðan- og austanlands. Sums staðar dálítil úrkoma sunnan til, en bjartviðri fyrir norðan. Hiti 0 til 5 stig sunnan og vestan til, en annars vægt frost.

Lægir í nótt, suðaustan 8-13 á morgun. Rigning eða slydda um landið SA-vert, þurrt N-lands, en annars úrkomulítið. Hiti víða 0 til 5 stig að deginum, en vægt frost á stöku stað.

Á laugardag:

Suðaustan 8-15 m/s, hvassast á Suðausturlandi. Rigning eða slydda á láglendi á suðurhelming landsins, en yfirleitt hægari og þurrt á norðanverðu landinu. Hiti 1 til 5 stig, en um frostmark norðanlands.

Á sunnudag:
Gengur í suðaustanstorm, fyrst um landið SV-vert. Talsverð rigning og sums staðar slydda, en lengst af þurrt nyrðra. Lægir undir kvöld, en áfram hvasst A-til. Hiti 1 til 6 stig.

Á mánudag:
Suðaustlæg átt og úrkoma A-til, en annars víða þurrt. Hiti nálægt frostmarki.

Á þriðjudag:
Austanátt, él fyrir norðan og austan, en annars þurrt að kalla. Frost um mestallt land.

Á miðvikudag:
Austan og síðar norðaustanátt. Él fyrir norðan og frost, en slydda syðst og hiti um frostmark.

Á fimmtudag:
Útlit fyrir norðanátt með éljum um landið N-vert, en bjart á köflum syðra. Hiti breytist lítið.

Gul viðvörun á Suðurlandi: 

8 nóv. kl. 16:00 – 9 nóv. kl. 05:00

„Búist er við stormi, allt að 25 m/s, hvassast undir Eyjafjöllum og með ströndinni. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 35 m/s, einkum undir Eyjafjöllum. Varasamt getur verið að vera á ferðinni, sérstaklega fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind, þar sem hálka getur verið á vegum. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.“

Gul viðvörun Faxaflói

8 nóv. kl. 19:00 – 9 nóv. kl. 08:00

„Búist er við stormi, allt að 25 m/s, hvassast á Kjalarnesi, við Hafnarfjall og í uppsveitum Borgarfjarðar. Búast má við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 35 m/s, einkum á Kjalarnesi og við Hafnarfjall. Varasamt getur verið að vera á ferðinni, sérstaklega fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind, þar sem hálka getur verið á vegum. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert