Sýknaður vegna ósamræmis í framburði

mbl.is

Karlmaður var sýknaður í Héraðsdómi Vesturlands í dag fyrir að hafa ráðist á fyrrverandi kærustu sína á þeim forsendum að ósamræmis hefði gætt í framburði hennar annars vegar hjá lögreglu og hins vegar fyrir dómi. Maðurinn nýtti rétt sinn til þess að svara hvorki spurningum um sakargiftir á hendur honum hjá lögreglu né fyrir dómi.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa 15. maí ýtt konunni með þeim afleiðingum að hún féll niður stiga, tekið í hár hennar og skellt henni í vegg, skallað hana í höfuðið og tekið hana hálstaki. Þetta hafi orðið til þess að konan hafi hlotið mar og yfirborðsáverka á hálsi, mar á brjóstkassa, mar á hægri öxl, upphandlegg og olnboga, hrufl á hægra hné, mar á innanverðu vinstra hné og marbletti á il á vinstri fæti.

Fram kemur í dómnum „að þótt framburður brotaþola fyrir dómi um framvindu atburða í greint hafi í sjálfu sér verið trúverðugur verður ekki fram hjá því litið að í honum gætir nokkurs ósamræmis gagnvart því sem hún hafði áður borið um hjá lögreglu, sem aftur rýrir óhjákvæmilega trúverðugleika hans og sönnunargildi.“

Þar sem framburður konunnar fengi ekki stuðning af öðrum gögnum en vottorði læknis um þá áverka sem greindust á henni þætti gegn neitun mannsins ekki komin fram nægileg sönnun, sem ekki yrði vefengd með skynsamlegum rökum, um að hann hefði ráðist að hana á þann hátt og með þeim afleiðingum sem greint væri frá í ákæru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert