Hvetja foreldra til að klæða börn hlýlega

Búast má við að hitastig í skólum Laugardals lækki á …
Búast má við að hitastig í skólum Laugardals lækki á mánudag. mbl.is/Hallur Már

Skólar í Laugardal biðja foreldra og forráðamenn um að klæða nemendur hlýlega á mánudaginn þar sem lágur þrýstingur verður á heitu vatni og jafnvel hitavatnslaust. Þá fellur skólasund niður í einhverjum skólum. 

Vegna tengingar á hitaveitu í Vogahverfi, Laugarási og við Laugardal í Reykjavík á mánudag má reikna með að heitavatnsþrýstingur verði lágur og hitavatnslaust þar sem byggð stendur hærra.Laugardalslaug verðir lokuð vegna vinnunnar og í líkamsræktarstöðinni Hreyfingu verður lokað fyrir sturtur og heita potta. 

Í tölvupósti sem Vogaskóli sendi á foreldra og forráðamenn eru aðstandendur nemenda beðnir um að klæða nemendur hlýlega þar sem líkur eru á að húsnæðið kólni. Þá eru foreldrar einnig beðnir um vera viðbúnir því að skerða þurfi skóladaginn. 

Einnig búist við kulda í Laugarnesskóla

Sigríður Heiða Bragadóttir, skólastjóri í Laugarnesskóla, segir það sama eiga við í Laugarnesskóla. Aðstandendur eru hvattir til að klæða nemendur hlýlega auk þess sem skólasund fellur niður á mánudag. 

Í Laugardal eru grunnskólarnir fjórir talsins, en auk Laugarnesskóla og Vogaskóla eru þar einnig Laugalækjarskóli og Langholtsskóli. Ekki náðist í forsvarsmenn allra skóla en búast má við því að tenging hitaveitunnar hafi áhrif í öllum skólum. 

Svæðið sem verður fyrir áhrifum vegna framkvæmdanna.
Svæðið sem verður fyrir áhrifum vegna framkvæmdanna. Kort/Veitur

Vinna á að standa yfir frá 6-20

Verið er að tengja nýja aðalæð hitaveitunnar við Elliðaárbrýr og flytur hún mestallt það vatn sem notað er í hverfinu. Til að minnka áhrifin á neytendur er vatni veitt inn í hverfið með öðrum leiðum, sem þó eru ekki eins afkastamiklar og má því búast við lækkuðum þrýstingi eða hitavatnsleysi. 

Vinnan hefst á mánudagsmorgun klukkan 6 og verða lagnir þá tæmdar. Vonast er til að hægt verði að hleypa á nýju í lögnina klukkan 20 á mánudagskvöld og mun taka einhverjar klukkustundir að ná upp fullum þrýstingi á kerfið.

mbl.is