Héraðssaksóknari með mál Samherja til skoðunar

Wikileaks birti í dag ríflega 30.000 skjöl tengd starfsemi Samherja …
Wikileaks birti í dag ríflega 30.000 skjöl tengd starfsemi Samherja í Namibíu.

„Við munum taka þetta sem fram hefur komið í málinu til meðferðar,“ segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við mbl.is um umfjöllun Kveiks og Stundarinnar um umsvif Samherja í Namibíu.

Þá staðfestir Ólafur Þór að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu, hafi mætt í skýrslutöku hjá embættinu í morgun.

Ólafur Þór tekur fram að stærsti hluti málsins liggi þó í Namibíu og af þeim sökum fari meðferð málsins fram í samráði við yfirvöld þar í landi.

Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu.
Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu. Skjáskot/Kveikur

„Þetta er heilmikið efni sem þarna er sett fram svo það tekur ákveðinn tíma að fara í gegnum það og þau gögn sem geta sagt til um atburðarásina.“

Wikileaks birti í dag ríflega 30.000 skjöl tengd starfsemi Samherja í Namibíu, og samkvæmt tilkynningu er von á öðru eins innan nokkurra vikna. Ljóst er að málið er afar umfangsmikið, en samkvæmt umfjöllun Stundarinnar og Kveiks hafa félög í eigu Samherja greitt hundruð milljóna í mútur til einstaklinga tengdum sjávarútvegsráðherra Namibíu til að tryggja aðgang að veiðikvóta þar í landi.

mbl.is