Héraðssaksóknari: Efni þáttarins „mjög afhjúpandi“

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari.
Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir að „hellingur“ hafi komið fram í fréttaskýringarþættinum Kveik í gærkvöldi sem hafi verið „mjög afhjúpandi“. Það efni muni bætast við önnur gögn sem embættið hefur þegar aflað sér og rannsakar.

Héraðssaksóknari rannsakar nú viðskipti Samherja í Namibíu og vinnur að rannsókninni í samstarfi við yfirvöld í Afríkuríkinu. Hann segist í samtali við mbl.is litlar upplýsingar geta veitt um rannsóknina að öðru leyti og gat til dæmis ekki svarað því hve lengi rannsóknin hafi staðið yfir. Embættið hefur þó þegar hafið aðgerðir.

Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu, kom í skýrslutöku hjá embættinu í gærmorgun, áður en hann steig fram í fjölmiðlum, bæði í Kveik og í Stundinni og lýsti meintum brotum fyrirtækisins.

„Við getum í sjálfu sér ekkert gefið upplýsingar um rannsóknina sjálfa, einungis staðfest að hún hafi hafist. Síðan náttúrulega bættist hellingur við í sambandi við efni þáttarins, sem var náttúrulega mjög afhjúpandi þarna í gær, og við bara förum yfir það sem þar kom fram, auk þeirra gagna sem embættið hefur þegar aflað sér og vinnum þetta frekar eftir því,“ segir Ólafur Þór.

Skattrannsóknarstjóri hefur fengið gögn frá Namibíu

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri.
Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri. mbl.is/​Hari

Skattrannsóknarstjóri fékk nýverið í hendur gögn sem bárust frá namibískum yfirvöldum, en frá þessu var greint á vef Kjarnans í morgun. Þar var vísað til svara Bryndísar Kristjánsdóttur skattrannsóknarstjóra við fyrirspurn miðilsins.

Bryndís sagði í svari sínu að hún gæti ekki gefið nánari upplýsingar um málið og ekki upplýst um það að hverjum gögnin beindust.

mbl.is