Samherjamálið „sjokkerandi“

Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar.
Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Málefni sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja voru þingmönnum ofarlega í huga þegar þingfundur hófst á Alþingi klukkan þrjú. Kallaði Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, eftir því að málið yrði rætt á þingfundi á morgun.

Fleiri þingmenn  tóku undir með Oddnýju sem einnig óskaði eftir því að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, yrði til svara í þinginu á morgun. Sagði Oddný málið „sjokkerandi“ og fagnaði enn fremur því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefði tekið vel í beiðni Pírata um sérstaka umræðu um spillingu á morgun.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, tók einnig til máls um málið: „Þetta er stóralvarlegt mál sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum síðastliðinn sólarhring, mál sem þarf að taka alvarlega. Við verðum að sinna okkar starfi og það er mjög mikilvægt að við höfum, á upphafsstigum þess að farið verði ofan í kjölinn á þessu máli, aðgengi að þessum ráðherrum hið minnsta til að byrja með. Ég vænti þess að það verði mögulegt að taka vel í þessa beiðni okkar.“

Sagði málið sorglegt og suddalegt

Kristján bað um orðið í umræðunni og sagðist geta svarað því strax að sjálfsagt væri að verða við því. Hann hefði aldrei skorast undan því að eiga samtal við þingið og væri einfaldlega heiður sýndur með því að fá tækifæri til þess að taka þátt í umræðu um þetta „sorglega og suddalega mál“. Full ástæða væri til þess að ræða það.

mbl.is