Skaðar orðspor greinarinnar og Íslands

Dr. Ásgeir Brynjar Torfason, sérfræðingur í fjármálum og reikningsskilum.
Dr. Ásgeir Brynjar Torfason, sérfræðingur í fjármálum og reikningsskilum. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

„Fyrir það fyrsta er auðvitað mikilvægt að málið verði rannsakað ítarlega og vandlega í ljósi alvarleika þeirra ásakana sem komið hafa fram og það er gott að komið hafi fram að bæði héraðssaksóknari og skattrannsóknastjóri hafi hafið slíka rannsókn.“

Þetta segir dr. Ásgeir Brynjar Torfason, sérfræðingur í fjármálum og reikningsskilum, í samtali við mbl.is vegna rannsóknar yfirvalda meðal annars á meintum mútum Samherja til ráðamanna í Namibíu til þess að komast yfir aflaheimildir. Ásgeir segir að ljóst sé að málið sé ekki aðeins skaðlegt fyrir orðspor fyrirtækisins heldur geti það einnig skaðað orðspor Íslands og íslensks sjávarútvegar.

„Hitt sem er náttúrulega slæmt er að þetta skaðar orðspor atvinnugreinarinnar og landsins. Án þess að ég vilji vera að gera einhverja samlíkingu þá er engu að síður ljóst að íslenskur banki er ekki að fara að hasla sér einhvern völl alþjóðlega á næstu áratugum. Vegna þess að orðspor íslenskrar fjármálastarfsemi náttúrulega bara rústaðist,“ segir Ásgeir.

Skaðinn þegar átt sér stað óháð framvindu málsins

Þannig sé einna sorglegast varðandi mál Samherja hvaða áhrif það kunni að hafa á orðspor íslenskrar þekkingar og fiskveiðistjórnunar. „Hvaða skoðun sem fólk kann að hafa á okkar fiskveiðistjórnunarkerfi er alveg ljóst að það hefur reynst vel til þess að hamla gegn ofveiði. Þátttaka okkar í þróunaraðstoð í þessum efnum undanfarna tvo áratugi hefur byggst á útflutningi á þekkingu okkar og kerfisuppbyggingu.“

Það góða orðspor sem byggt hafi verið upp hafi skaðast á einni nóttu. „Skaði hefur í raun þegar átt sér stað óháð því hvernig rannsókn á málinu fer og mögulegum dómsmálum. Bara með því að grunurinn komi upp og rannsókn þurfi að fara í gang.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert