Minningarstund við Kögunarhól

Bakvarðasveit samfélagsins. Frá vinstri talið; Pétur Pétursson slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, ...
Bakvarðasveit samfélagsins. Frá vinstri talið; Pétur Pétursson slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, björgunarsveitarfólkið Halldóra Hjörleifsdóttir, Gísli Páll Pálsson og Jóhannes Þórólfur Guðmundsson og Sigurjón Bergsson sjúkraflutningamaður. mbl.is/Sigurður Bogi

Efnt var til samkoma víða um land í gær í tilefni af alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa. Fólk úr sveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar stóð fyrir viðburðum á ýmsum stöðum, svo sem við Kögunarhól undir Ingólfsfjalli milli Hveragerðis og Selfoss.

Fólki á Suðurlandi hefur mjög runnið til rifja hve mörg slys hafa orðið á leiðinni milli Reykjavíkur og Selfoss og hefur vegna þess verið kallað eftir samgöngubótum. Krafa um slíkt var undirliggjandi þegar 52 krossar voru settir upp við Kögunarhól árið 2006.

Krossarnir eru jafn margir og fólkið sem látist hafði í umferðarslysum á umræddri leið frá 1972 til 2006. Slysunum hefur heldur fækkað í seinni tíð og vegurinn hefur verið bættur verulega, svo sem með tvöföldun og aðskilnaði akreina til hvorrar áttar. Nýlega lauk tvöföldun vegarins fyrir austan Hveragerði – og haldið verður svo áfram með þá framkvæmd alla leið á Selfoss á næstu misserum.

„Þessi samverustund í dag var falleg,“ segir Halldóra Hjörleifsdóttir úr björgunarsveitinni Eyvindi í Hrunamnnahreppi, sem jafnframt er oddviti í sinni heimasveit. „Við eigum að halda á lofti minningu fórnarlamba umferðarslysanna – en jafnframt halda vöku okkar og fækka slysunum.“

Björgunarsveitir í Árnessýslu stóðu að viðburðinum við Kögunarhól en einnig komu slökkviliðsmenn að málum, sjúkraflutningafólk, lögregluþjónar og hjálparliðar Rauða krossins.

Axel Árnason, prestur á Suðurlandi, ávarpaði samkomuna við Kögunarhól.
Axel Árnason, prestur á Suðurlandi, ávarpaði samkomuna við Kögunarhól. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is