Borgarstjórn samþykkti að loka Kelduskóla Korpu

Kelduskóla Korpu verður lokað á næsta skólaári.
Kelduskóla Korpu verður lokað á næsta skólaári. Ljósmynd/Ófeigur Lýðsson

Tillaga meirihluta borgarstjórnar um breytingar á skólahaldi í norðanverðum Grafarvogi var samþykkt með tólf atkvæðum meirihlutans gegn ellefu á fundi borgarstjórnar í dag, eftir nokkuð harðar umræður. Breytingatillögu minnihlutans, sem kvað á um að fyrirhuguðum breytingum yrði frestað, var hafnað með sama atkvæðamun.

Tillagan, sem hefur verið mjög umdeild, felur í sér að skólahald í Kelduskóla Korpu í Staðahverfi verður aflagt, allavega þar til nemendur á aldrinum 6-12 ára í hverfinu verða orðnir að minnsta kosti 150 talsins. Í dag eru nemendur skólans, í 1.-7. bekk, 59 talsins.

Hópur fólks var kominn í fundarsal borgarstjórnar til þess að fylgjast með umræðum og var tillögum meirihlutans fagnað, svo mjög að Pawel Bartoszek forseti borgarstjórnar þurfti nokkrum sinnum að benda tilheyrendum á að það tíðkaðist ekki að vera með lófatak og framíköll á fundum borgarstjórnar.

Samkvæmt tillögunni verða þrír grunnskólar í norðanverðum Grafarvogi á næsta skólaári, í stað fjögurra nú. Tveir verða fyrir nemendur í 1.-7. bekk, annar í Borgum en hinn í Engi og svo verður unglingaskóli í Vík fyrir nemendur í 8.-10. bekk. Skólarnir munu taka upp sín fyrri nöfn, Borgaskóli, Engjaskóli og Víkurskóli.

Við þessar breytingar lengist leið barna í Staðahverfi til skóla, oft um u.þ.b. 1.500 metra. Brugðist verður við því með því að bjóða upp á skólaakstur fyrir börn í 1.-4. bekk frá frá Korpuskóla að Engjaskóla. Þá verður börnum á mið- og unglingastigi í Staðahverfi boðið upp á að velja hvort þau fái skólaakstur eða ókeypis strætókort. Einnig segir í tillögunni að tryggðar verði samgöngubætur til þess að auka umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda og til þess að tengja betur öll hverfi í norðanverðum Grafarvogi.

Tillagan í heild sinni

mbl.is