„Við erum að reyna að pota þessu áfram“

Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, í félagsdómi í dag,
Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, í félagsdómi í dag, mbl.is/Hari

„Við vorum að fara yfir málin og reyna að koma hlutunum af stað aftur,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, í samtali við mbl.is en fundað var í kjaradeilu félagsins við Samtök atvinnulífsins í húsakynnum ríkissáttasemjara í dag.

Fundað verður aftur á morgun klukkan 13:30 en Hjálmar segir aðspurður að fundurinn í dag hefði verið ágætur. „Við erum að reyna að pota þessu áfram og finna fleti á því að leysa þetta. Það er óvíst hvert það leiðir en á meðan verið er að tala saman er möguleiki.“

„Þetta voru ágætar umræður sem fóru fram í dag. Við fundum aftur á morgun og erum að skoða ákveðna hluti í millitíðinni,“ segir Hjálmar. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, tekur í hliðstæðan streng í samtali við mbl.is. Fundurinn í dag hafi verið ágætur og unnið sé að því að reyna að lenda deilunni.

Kæra Blaðamannafélagsins vegna meintra verkfallsbrota á mbl.is í verkföllum síðustu tvo föstudaga var þingfest í dag í félagsdómi og var báðum aðilum veittur tveggja vikna frestur til þess að skila inn greinargerðum vegna málsins að sögn Hjálmars.

Tekið skal fram að flestir blaðamenn á ritstjórn mbl.is og Morgunblaðsins eru félagar í Blaðamannafélagi Íslands.

mbl.is