Jóhanna yngsti formaður tannlækna

Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir, nýr formaður Tannlæknafélags Íslands og Elín Sigurgeirsdóttir, …
Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir, nýr formaður Tannlæknafélags Íslands og Elín Sigurgeirsdóttir, fráfarandi formaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrsta stjórn Tannlæknafélags Íslands var kosin 6. nóvember 1927. Kona var fyrst kjörin formaður félagsins árið 2008 en nýkjörinn formaður, Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir, er yngsti formaður félagsins til þessa, verður fertug á næsta ári.

Jóhanna útskrifaðist frá tannlæknadeild Háskóla Íslands vorið 2008 og hóf rekstur Tannlæknastofunnar Turnsins á Smáratorgi í Kópavogi ásamt tveimur öðrum tannlæknum um haustið, í byrjun bankahrunsins.

„Það er kannski lýsandi fyrir andrúmsloftið á Íslandi fyrir hrun að um vorið 2008 ákváðum við að opna okkar eigin tannlæknastofu,“ segir hún. „Það fór svo að stofan var opnuð í sömu viku og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, bað Guð að blessa Ísland. Eins og flestir geta ímyndað sér var það oft á tíðum erfitt og alls ekkert skemmtilegt að standa í því að reka nýtt fyrirtæki á þessum árum.“

Samkvæmt samningi Tannlæknafélagsins við Sjúkratryggingar Íslands eru tannlækningar barna að 18 ára aldri greiddar að fullu af SÍ fyrir utan 2.500 króna árlegt komugjald. Samningur vegna ellilífeyrisþega og öryrkja frá því í fyrrasumar kveður á um 50% endurgreiðslu en vonir félagsins standa til þess að þátttaka SÍ í kostnaði verði aukin. „Við þurfum að standa vörð um þessa samninga og fylgja þeim eftir,“ segir Jóhanna. „Það er okkar helsta verkefni.“

Sjá viðtal við Jóhönnu í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert