Lögregla rannsakar tildrög elds í veiðihúsi

Rannsókn á tildrögum elds sem kom upp í veiðihúsi við Deild­ará, sunn­an við Raufar­höfn, í gærkvöldi er nú hafin hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri.

Tilkynning barst um eld í húsinu um áttaleytið í gærkvöldi og fór slökkvilið Norðurþings á staðinn. Húsið var mann­laust og mætti mikið eldhaf slökkviliðsmönnum er þeir komu á staðinn.

Óttast var um tíma að eldurinn myndi ná að læsa sig í annað hús í nágrenninu, en unnt reyndist að hindra það.

Að sögn lögreglunnar á Húsavík eru tildrög eldsins enn óljós, en húsið er hins vegar algjörlega ónýtt.

mbl.is