Rændu símum af börnum

Ljósmynd/Lögreglan

Tveir menn eru í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir að hafa rænt símum af börnum í Breiðholti og Árbæ í gærkvöldi og veist að manni á göngustíg og reynt að ræna hann. 

Í dagbók lögreglunnar kemur fram að tilkynning hafi borist til lögreglu klukkan 20:44 um að unglingur hafi leyft tveimur mönnum að hringja úr síma sínum í Breiðholtinu (hverfi 111) en þeir hlaupið á brott með símann. Tæplega einni og hálfri klukkustund síðar er tilkynnt um að tveir menn hafi veist að manni á göngustíg í sama hverfi og krafið hann um úlpu, peninga og síma. Maðurinn náði að komast undan án þess að afhenda eigur sínar. Mennirnir fundust ekki þrátt fyrir mikla leit. 

Klukkustund síðar var tilkynnt um að tveir menn hefðu rænt síma og fleiri munum frá þrettán ára gömlum dreng í Hraunbænum. Mennirnir voru handteknir skömmu síðar og vistaðir fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu. Um sömu menn er að ræða og tilkynnt var um í Breiðholtinu fyrr um kvöldið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert