Togarinn Heinaste kyrrsettur af dómara

Arngrímur Brynjólfsson er skipstjóri á Heineste, sem nú hefur verið …
Arngrímur Brynjólfsson er skipstjóri á Heineste, sem nú hefur verið kyrrsettur.

Yfirvöld í Namibíu hafa ákveðið að kyrrsetja togarann Heinaste, sem er í eigu dótturfélags Samherja. RÚV greinir frá þessu og segir þetta koma fram í úrskurði sem dómari tók í dag og sem fréttastofan hefur undir höndum.

Greint var frá því í gær að íslenskur skipstjóri, Arngrímur Brynjólfsson, hefði verið hand­tek­inn í Namib­íu grunaður um ólög­leg­ar veiðar und­an strönd­um lands­ins og úrskurðaður í farbann þar til mál hans hef­ði verið leyst gagn­vart namib­ísk­um yf­ir­völd­um.

Björgólf­ur Jó­hanns­son, starf­andi for­stjóri Sam­herja, sagði í samtali við mbl.is í gær að ásakanir namibískra yfirvalda snerust um að Arngrímur hefði farið á Heinaste yfir línu, en áhöld væru um hvort það hefði gerst.

Bætti Björgólfur því við að málið væri „allt und­ir „control““. „Þetta eru ásak­an­ir sem voru ekki að ger­ast í gær eða fyrra­dag en hann er ekki í varðhaldi eða neinu slíku,“ sagði hann.

Að því er fram kemur í frétt RÚV virðist kyrrsetningin vera gerð til að hægt sé að leita í skipinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina