Boða til mótmæla á Austurvelli í dag

Mótmælafundurinn fer fram klukkan 14 í dag á Austurvelli.
Mótmælafundurinn fer fram klukkan 14 í dag á Austurvelli. mbl.is/Ómar Óskarsson

Boðað hefur verið til mótmælafundar á Austurvelli klukkan 14 í dag. 

Stjórnarskrárfélagið, Efling stéttarfélag, Öryrkjabandalagið, Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá, Gegnsæi, samtök gegn spillingu, og hópur almennra borgara og félagasamtaka boða til mótmælafundarins. Ræðumenn á fundinum verða þau Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, Atli Þór Fanndal blaðamaður, Þórður Már Jónsson lögmaður og Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar. Þá mun hljómsveitin HATARI vera með tónlistaratriði. 

Kröfur mótmælenda eru þríþættar. Í fyrsta lagi er þess krafist að Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra segi af sér, í öðru lagi að Alþingi lögfesti nýja og endurskoðaða stjórnarskrá og í þriðja lagi að arður af nýtingu sameiginlegra auðlinda landsmanna renni í sjóði almennings. 

„Almenningur í Namibíu er rændur af íslenskri stórútgerð. Almenningur á Íslandi er rændur arðinum af auðlindum sínum. Tugir milljarða eru færðir árlega í vasa stórútgerða sem ættu að renna í sjóði almennings til uppbyggingar samfélagsins,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum mótmælanna. 

„Óréttlætið þrífst í skjóli úreltrar stjórnarskrár og pólitískrar spillingar. Stjórnmálaflokkar standa auðsveipir gagnvart sérhagsmunum örfárra sem náð hafa heljartaki á þjóðlífinu í skjóli lögverndaðs arðráns og ofsagróða. Fjárhagsleg samskipti stórútgerða og stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka þarf að rannsaka og skera upp herör gegn skattaskjólum og peningaþvætti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina