Hljóðlátari vinnutæki við stækkun Gamla-Garðs

Tölvuteiknuð mynd af nýbyggingu við Gamla-Garð.
Tölvuteiknuð mynd af nýbyggingu við Gamla-Garð. Mynd/Andrúm

Framkvæmdir eru að hefjast vegna stækkunar Gamla-Garðs. Við stúdentagarðinn bætast tvær þriggja hæða viðbyggingar með tengigangi og kjallara. Gert er ráð fyrir að framkvæmdunum ljúki haustið 2021.

Alls verða 69 herbergi í nýju viðbyggingunum með sér baðherbergi, sameiginlegu eldhúsi, setustofum, samkomurými, geymslum og þvottaaðstöðu, að því er segir á vefsíðu Háskóla Íslands.

Við hönnun hússins var lögð áhersla á að það félli vel að nærliggjandi byggingum Háskóla Íslands, Gamla-Garði, Þjóðminjasafni og götumynd við Hringbraut.

Valdi sem minnstu ónæði 

Framkvæmdirnar munu hafa áhrif á aðkomu að háskólasvæðinu og bílastæðamál. Reynt verður eftir fremsta megni að haga framkvæmdum þannig að þær valdi sem minnstu ónæði fyrir stúdenta, starfsmenn og gesti á háskólasvæðinu.

Til verksins hafa verið valin hljóðlátari vinnutæki en almennt gerist. Reikna má með að jarðvinnu, uppsteypu og lóðavinnu fylgi mest rask en öll vinna mun fara fram á virkum dögum á milli klukkan 8 og 18.

mbl.is