Andrés segir sig úr þingflokki VG

Andrés Ingi Jónsson.
Andrés Ingi Jónsson. mbl.is/Hari

Andrés Ingi Jónsson hefur sagt sig úr þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Frá þessu var greint við upphaf þingfundar nú síðdegis.

Las þingforseti þar upp úr bréfi sem Andrés sendi Steingrími J. Sigfússyni þingforseta. Kom þar fram að Andrés Ingi, sem hefur verið 9. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður,  hafi sagt sig úr þingflokkinum og muni eftirleiðis starfa utan þingflokka.

Andrés Ingi birti á sama tíma færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann rifjar upp aðdraganda þess að flokksráð VG samþykkti núverandi stjórnarsamstarf. 

Það samstarf hafi verið áskorun eins og við hafi verið að búast, þó allir hafi lagt sig fram um að vinna sem best saman.

„Það hafa á þessu tíma safnast upp dæmi sem mér þykja til marks um það sem ég óttaðist í upphafi: að Vinstri græn ættu sífellt erfiðar með að veita samstarfsflokkunum mótspyrnu og stjórnarsamstarfið færðist enn fjær því sem flokkurinn ætti að standa fyrir,“ segir Andrés Ingi í færslu sinni.

„Vissulega höfum við náð árangri en oft hafa málamiðlanir fallið fjarri okkar hugsjónum, eins og birtist til að mynda í stjórnarfrumvarpi um útlendinga á liðnu vori. Aðkallandi aðgerðir til að sporna við hamfarahlýnun hafa ekki gengið jafn langt og ég tel nauðsynlegt og sjálfsagt í ríkisstjórn undir forystu grænnar hreyfingar.“

Undanfarin tvö ár hafi hann upplifað að ríkisstjórnarsamstarfið hefti sig í „að vinna af fullum krafti fyrir þeim hugsjónum“ sem hann hafi verið kosinn  fyrir.  „Nú er svo komið að ég tel fullreynt að ég geti sinnt þingstörfum eftir samvisku minni og sannfæringu við núverandi aðstæður,“ segir Andrés Ingi og kveðst hafa kvatt félaga sína í þingflokki VG nú síðdegis og þakkað þeim samfylgdina.

Í orðsendingu sem þingflokkur VG sendi frá sér segir að þingflokkurinn þakkiAndrési Inga samstarfið undanfarin ár. 

mbl.is