Fráleitar ásakanir Samherja um ósannindi

Kveikur hefur sent frá sér yfirlýsingu.
Kveikur hefur sent frá sér yfirlýsingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fullyrðingar Samherja í tilkynningum fyrirtækisins síðustu daga um meintar rangfærslur RÚV eiga ekki við rök að styðjast og kalla ekki á leiðréttingu eins og fyrirtækið hefur krafist.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fréttaskýringarþættinum Kveik.

Þar segir að vegna tilkynningar frá Samherja í dag um félagið Cape Cod FS og meintar rangfærslur RÚV í umfjöllun Kveiks sé tilefni til að árétta nokkrar staðreyndir.

„Í umfjöllun Kveiks hefur aldrei verið fullyrt að Samherji eigi eða hafi átt félagið Cape Cod FS á Marshall-eyjum. Hið rétta er að Kveikur sagði frá því að Samherji notaði félagið og að starfsmaður útgerðarinnar hafi haft prókúru á  reikningum þess í norska bankanum DNB,“ segir í tilkynningunni þar sem vísað er í umfjöllun Kveiks þess efnis og bent á að hún sé byggð á gögnum sem WikiLeaks birti á þriðjudag og aðrir miðlar hafa unnið fréttir upp úr.

Einnig er minnst á fréttatilkynningu Samherja frá 26. nóvember undir fyrirsögninni „Uppspuni í Ríkisútvarpinu“ og nefnt að ummæli fréttamannsins Helga Seljan um störf sem hafi tapast í Namibíu séu bein tilvitnun í þátt Kveiks um Samherjamálið frá 12. nóvember. Þar greinir Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja, frá þúsund störfum sem hafi tapast en heimildir Kveiks styðja þá frásögn, þar á meðal skrif namibískra fjölmiðla.

Tilraun til að afvegaleiða umræðuna

„Ásakanir Samherja í garð fréttamannsins um ósannindi eru fráleitar. Virðast í raun snúast um tilraun fyrirtækisins til að afvegaleiða umræðuna með því að vega persónulega að fréttamanninum og draga úr trúverðugleika hans. Og líta alfarið fram hjá þeim upplýsingum og gögnum sem komu fram í þætti Kveiks 12.nóvember og ummæli hans byggjast á,“ segir í tilkynningunni, þar sem einnig er nefnt að Samherji hafi margítrekað hafnað viðtali við Kveik.

Yfirlýsingin í heild sinni:

„Vegna fréttatilkynningar Samherja í dag um félagið Cape Cod FS og meintar rangfærslur Ríkisútvarpsins í umfjöllun Kveiks er tilefni til að árétta nokkrar staðreyndir. Í umfjöllun Kveiks hefur aldrei verið fullyrt að Samherji eigi eða hafi átt félagið Cape Cod FS á Marshall-eyjum. Hið rétta er að Kveikur sagði frá því að Samherji notaði félagið og að starfsmaður útgerðinnar hafi haft prókúru á  reikningum þess í norska bankanum DNB. Í umfjöllun Kveiks sagði orðrétt: 

,,Skoðun DNB á reikningum sem bankinn taldi víst að væru tengdir Samherja og tóku meðal annars til félagsins JPC Shipmanagement sem sá um ráðningarsamninga starfsmanna á skipum félagsins víða um heim. Það var sagt móðurfélag annars félags, Cape Cod Fs, á Marshall-eyjum, sem DNB taldi raunar í eigu Samherja. Enda hafði starfsmaður fyrirtækisins verið meðal prókúruhafa reikningsins og stofnandi.“

Þessi atriði eru byggð á gögnum sem WikiLeaks birti á þriðjudag og ýmsir miðlar, þar á meðal RÚV og NRK, hafa unnið fréttir upp úr. 

Hvað varðar fréttatilkynningu Samherja frá 26. nóvemer sl. undir fyrirsögninni ,,Uppspuni í Ríkisútvarpinu“ skal það áréttað að ummæli Helga Seljan fréttamanns Kveiks um störf sem hafi tapast í Walvis Bay í Namibíu eru bein tilvitnun í þátt Kveiks um Samherjamálið þann 12.nóvember sl. Í þættinum er að finna frásögn Jóhannesar Stefánssonar fyrrverandi starfsmanns Samherja um þau þúsund störf sem hafi tapast og aðrar heimildir Kveiks styðja þá frásögn. Þar á meðal skrif namibískra fjölmiðla. 

Ásakanir Samherja í garð fréttamannsins um ósannindi eru fráleitar. Virðast í raun snúast um tilraun fyrirtækisins til að afvegaleiða umræðuna með því að vega persónulega að fréttamanninum og draga úr trúverðugleika hans. Og líta alfarið fram hjá þeim upplýsingum og gögnum sem komu fram í þætti Kveiks 12. nóvember og ummæli hans byggjast á. 

Fullyrðingar Samherja í tilkynningum fyrirtækisins síðustu daga um meintar rangfærslur RÚV eiga ekki við rök að styðjast og kalla ekki á leiðréttingu eins og fyrirtækið hefur krafist.

Þar sem Samherji hefur margítrekað hafnað viðtali við Kveik um efnisatriði málsins hefur hins vegar ekki reynst unnt að fá svör við fjölmörgum spurningum. 

F.h. ritstjórnar Kveiks, 

Rakel Þorbergsdóttir“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert