Norsk yfirvöld rannsaka DNB

Upplýsingafulltrúi DNB, Even Westerveld, segir í yfirlýsingu að bankinn hafi …
Upplýsingafulltrúi DNB, Even Westerveld, segir í yfirlýsingu að bankinn hafi verið í góðu samstarfi við efnahagsbrotadeildina. Af vef DNB

Efnahagsbrotadeild norsku lögreglunnar hefur formlega hafið rannsókn á norska bankanum DNB vegna umfjöllunar fjölmiðla um aðkomu bankans að Samherjamálinu. Frá þessu er greint á vef NRK, auk þess sem lögreglan hefur birt yfirlýsingu þessa efnis í samráði við bankann.

Þar segir að rannsóknin verði unnin í samstarfi við yfirvöld í öðrum löndum, og staðfestir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við mbl.is að norska efnahagsbrotadeildin hafi verið í sambandi við embættið, en RÚV greindi fyrst frá þessu.

Í yfirlýsingu efnahagsbrotadeildar norsku lögreglunnar segir að markmið rannsóknarinnar sé að komast að því hvort eitthvað hafi farið fram í bankanum sem varði hegningarlög.

Bankinn geti nú upplýst um allt sem hann viti um Samherjamálið

Upplýsingafulltrúi DNB, Even Westerveld, segir í yfirlýsingu að bankinn hafi verið í góðu samstarfi við efnahagsbrotadeildina og að nú þegar formleg rannsókn sé hafin geti bankinn upplýst um allt sem vitað sé um Samherjamálið.

Jafnframt ítrekar Westerveld að það sé íslenskt útgerðarfyrirtæki sem grunað sé um spillingu, en ekki bankinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert