Snjóruðningstæki ók inn á flugbraut án heimildar

Flugvél TF-ORD fór framhjá snjóruðningstækinu í flugtaksbruni sínu.
Flugvél TF-ORD fór framhjá snjóruðningstækinu í flugtaksbruni sínu. Úr skýrslu RNSL

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur gefið út lokaskýrslu vegna alvarlegs flugatviks sem varð 9. febrúar 2018 þegar snjóruðningstæki ók inn á flugbraut án heimildar.

Umræddan dag hafði verið mikið að gera við snjóhreinsum og bremsumælingar á Reykjavíkurflugvelli.

Atburðarás var með þeim hætti að stjórnanda snjóruðningstækisins hafði yfirsést að þeir höfðu ekki heimild til að fara aftur inn á flugbrautina, en hann varð var við snjógarð sem hafði myndast í vinstri útjaðri flugbrautar 19, sem þeir höfðu lokið við að rýma um 10 mínútum fyrr, og og ákvað að ryðja honum betur út af.

Í millitíðinni hafði flugumferðarstjóri gefið flugvél TF-ORD leyfi til flugtaks, að lokinni bremsumælingu, á flugbraut 19.

Þegar flugumferðarstjóri varð var við að snjóruðningstækið væri staðsett á flugbrautinni var orðið of seint að vara stjórnanda snjóruðningstækisins við og fór flugvél TF-ORD framhjá snjóruðningstækinu í flugtaksbruni sínu.

Við rannsóknina kom í ljós að notkun og upptökum á bílarás í flugturni var ábótavant, en flugumferðarstjóri heyrði ekki þegar stjórnendur snjóruðningstækjanna voru beðnir að hreinsa flughlað við flugskýli 4, þar sem tíðni Tetra-vinnurásar er ekki aðgengileg í flugturni, og var því ekki kunnugt að þau væru á leiðinni þangað.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa leggur til að Isavia skoði þann möguleika að tengja hlustun á turnrás inn á fjarskiptatæki í farartækjum flugvallarþjónustu Reykjavíkurflugvallar til þess að auka næmi á aðstæður (e. situational awareness).

Skýrslan í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert