Á 119 km hraða og aldrei áður keyrt í hálku

Ökumaðurinn kannaðist við brot sitt og greiddi sektina á staðnum, …
Ökumaðurinn kannaðist við brot sitt og greiddi sektina á staðnum, en hann kvaðst aldrei hafa keyrt í hálku áður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á Suðurlandi mældi ökumann á 119 km hraða á klukkustund skammt frá Vík á laugardaginn. Fljúgandi hálka var á veginum og varla stætt, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni. 

Ökumaðurinn kannaðist við brot sitt og greiddi sektina á staðnum, en hann kvaðst aldrei hafa keyrt í hálku áður.

Alls voru 63 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi í síðustu viku. Fjórir ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið bifreiðum undir áhrifum áfengis og þrjú mál komu inn á borð lögreglu vegna utanvegaaksturs.

Fjórar tilkynningar bárust vegna búfjár sem gekk laust á vegum, en ekki er vitað til þess að tjón hafi orðið vegna þess.

Ellefu umferðaróhöpp urðu og í þremur urðu slys á fólki.

mbl.is