Þingforseti harðlega gagnrýndur

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/​Hari

Hanna Katrín Friðriksson og Þorsteinn Víglundsson, þingmenn Viðreisnar, furðuðu sig á fundarstjórn Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, á þingi nú síðdegis. Steingrímur sagðist hafa gert mistök þegar hann leyfði Þorsteini að spyrja annan ráðherra en hann hafði tilkynnt að hann myndi beina fyrirspurn til áður en liðurinn óundirbúnar fyrirspurnir hófst á þinginu.

Þorsteinn spurði Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, út í umsækjendur um stöðu útvarpsstjóra en áður hafði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, spurt Lilju um stöðuna.

Töluvert fleiri þingmenn stjórnarandstöðunnar stigu fram og gagnrýndu Steingrím og sögðu ákvörðun hans grafa undan því sem liðurinn ætti einmitt að vera, óundirbúnar fyrirspurnir.

Þorsteinn Víglundsson hafði óskað eftir því að spyrja annan ráðherra en upprunalega stóð til. Steingrímur benti á að hann hefði fallist á það.

Ekki kappræður

„En í ljósi þess sem fram kom síðar að tilefnið var nýtt til bera fram fyrirspurn sem þegar hafði verið spurt og þegar verið svarað lítur forseti svo á að hann hafi gert mistök,“ sagði Steingrímur.

Steingrímur sagði síðan að ekki væri hægt að breyta skráningu á fyrirspurn og til hvaða ráðherra hún skuli beinast eftir að liðurinn óundirbúnar fyrirspurnir væru hafnar.

„Þessi fyrirspurnartími er ekki hugsaður þannig að hann breytist í kappræður og menn geti valið sér fyrirspyrjendur eftir því sem umræðum framvindur.“

mbl.is