Börn á rúntinum í nótt

mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar í miðborginni á fimmta tímanum í nótt og kom í ljós að ökumaðurinn var aðeins 16 ára og hefur því aldrei öðlast ökuréttindi. Lögreglan hafði samband við móður ökumannsins og tilkynnti málið til barnaverndar. Tveir farþegar voru í bifreiðinni jafnaldrar ökumanns og var einnig haft samband við foreldra þeirra af hálfu lögreglu.

Líkt og oft áður voru nokkrir ökumenn stöðvaðir í umferðinni í gærkvöldi og í nótt sem voru ófærir um akstur bifreiðar vegna neyslu vímuefna. Auk þess að hafa ekið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna reyndust einhverjir þeirra hafa brotið fleiri lög, svo sem ekið án ökuljósa og sviptir ökuréttindum. Jafnframt var einn stöðvaður fyrir að fara yfir á rauðu ljósi og annar fyrir akstur án ökuréttinda.

Lögreglan hafði afskipti af ofurölvi manni á bar um eitt í nótt. Maðurinn gat ekki gert grein fyrir sér og var ekki með skilríki á sér. Maðurinn var handtekinn og er vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Tilkynnt var um þjófnað á veitingahúsi í Hafnarfirði í gærkvöldi en þar hafði maður farið  í starfsmannaaðstöðu og stolið seðlaveski með kortum. Seint í nótt var síðan brotist inn í fyrirtæki í Hafnarfirðinum en ekki liggur fyrir á þessari stundu hverju var stolið. Brotist var inn í Kópavoginum síðdegis en ekki er vitað hverju var stolið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert