Dæmdur bæjarfulltrúi hyggst standa við sitt

Guðmundur Gísli Geirdal, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.
Guðmundur Gísli Geirdal, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi. Ljósmynd/Aðsend

Guðmundur Gísli Geirdal, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi, segir að ekki standi til neins annars en að standa við þær skuldbindingar sem á hann eru lagðar. Hann var í lok nóvember dæmdur til að greiða þrotabúi útgerðar sem áður var í hans eigu 50 milljónir króna auk dráttarvaxta.

Guðmundur og eiginkona hans voru dæmd til að greiða þrotabúi útgerðarfélagsins Sælindar, sem var áður í eigu hjónanna, áðurnefnda sekt. Guðmundur var dæmdur fyrir gjafagjörning en skiptastjóri þrotabúsins taldi að Guðmundur hefði reynt að koma eignum undan áður en félagið varð gjaldþrota.

Guðmundur segir á Facebook-síðu sinni í dag að hann hafi frá hruni reynt að bjarga fyrirtæki sínu og heimili frá þroti eftir að skuldir stökkbreyttust við fall bankanna. Til þess hafi hann selt eignir sínar.

Hann segir enn fremur að ráðgjöf sem fékkst hjá skattalögfræðingum hafi reynst röng og hún orðið til þess að málið fór þá leið sem það fór.

Það er þungt að þurfa að sætta sig við að ráð lærðra manna verði til þess að málið endar með þessum dómi. Einnig er nauðsynlegt að taka fram að undirritaður hefur frá hruni greitt persónulega tugir miljóna inn til fyrirtækisins. Slíkar upplýsingar voru ekki fáanlegar fyrr en fyrir nokkrum mánuðum síðan þegar Íslandsbanki „fann“ loks uppgjör skulda undirritaðs við bankastofnunina. Það uppgjör sýnir vel að eigendur fyrirtækisins hafi greitt inná skuldir fyrirtækisins,“ skrifar Guðmundur.

Guðmundur segir einnig að það komi ekki á óvart að bæjarfulltrúi Viðreisnar saki hann um að geta ekki sinnt skyldum sínum sem bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins vegna málsins.mbl.is