Grunaður um aðild að innflutningi fíkniefna

Mennirnir voru handteknir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Mennirnir voru handteknir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/​Hari

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness um að karlmaður skuli sæta gæsluvarðhaldi til 6. desember vegna gruns um aðild að innflutningi fíkniefna.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að maðurinn hafi komið til landsins 22. nóvember með sama flugi og annar sem hefur verið ákærður vegna málsins. Báðir voru þeir handteknir vegna gruns um að hafa fíkniefni innvortis og reyndist meðákærði hafa skilað af sér fíkniefnum.  

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins er ákærði undir rökstuddum grun um aðild að innflutningi fíkniefna. Rannsókn málsins er enn í gangi og er meðal annars verið að rannsaka nánar tengsl ákærða og meðákærða.

Fram kemur að einnig þurfi að rannsaka hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og erlendis, auk annarra atriða.

Magn hinna meintu fíkniefna þyki eindregið benda til þess að þau hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi.

mbl.is