12 stiga frost á Suðurlandi

Þingvellir í vetrarbúningi.
Þingvellir í vetrarbúningi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Norðlæg átt verður ríkjandi á landinu í dag og verður léttskýjað og frost allt niður í 12 stig á Suðurlandi. Aftur á móti er hvöss vestanátt á Austurlandi og getur vindur þar farið í 20 m/s í strengjum við fjöll. 

„Í dag verður norðlæg átt á landinu, víða 8-15 m/s um landið norðanvert. Á Austurlandi verður hins vegar hvöss vestanátt fram yfir hádegi og getur vindur farið upp í 20 m/s í strengjum við fjöll. Heldur hægari vindur verður suðvestanlands. Með norðanáttinni fylgir éljagangur um landið norðanvert og kólnandi veður. Á Suðurlandi verður hins vegar léttskýjað og frost allt niður í 12 stig.

Á föstudaginn er síðan útlit fyrir fallegt vetrarveður víðast hvar, hægur vindur, léttskýjað og frost. Næsta lægð er síðan væntanleg að suðurströndinni síðdegis á laugardag með ögn hlýrra lofti og snjókomu eða slyddu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Spáin fyrir næstu daga

Norðlæg átt 8-15 m/s og él, en vestan 15-20 austan til fram yfir hádegi. Lengst af hæg norðlæg átt og léttskýjað sunnan og vestan til. Frost 0 til 12 stig, kaldast í uppsveitum sunnanlands.

Norðlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s, á morgun, en norðvestan 10-15 austast. Éljagangur norðaustan- og austanlands en annars bjartviðri. Frost 1 til 9 stig, kaldast norðan til.

Á föstudag:

Norðan 3-10 m/s, en 10-15 með norðausturströndinni. Dálítil snjókoma eða él norðan- og austanlands, annars léttskýjað. Frost 2 til 10 stig, kaldast inn til landsins.

Á laugardag:
Vaxandi austlæg átt, 10-15 m/s síðdegis en hægari norðaustanlands. Að mestu skýjað og þurrt, en dálítil él með norðurströndinni og snjókoma sunnan til um kvöldið. Minnkandi frost.

Á sunnudag:
Norðaustanátt og snjókoma eða slydda með köflum en úrkomulítið vestanlands. Hiti kringum frostmark.

Á mánudag:
Suðaustanátt, rigning og hiti 1 til 6 stig, en úrkomulítið norðaustan til og frost 1 til 6 stig.

Á þriðjudag:
Ákveðin austlæg átt og rigning eða slydda, en snjókoma nyrst. Hiti kringum frostmark.

Á miðvikudag:
Útlit fyrir stífa norðaustlæga átt með snjókomu norðaustanlands en annars þurrt að kalla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert