Með börn í eftirdragi

Mynd úr safni mbl.is.
Mynd úr safni mbl.is. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tilkynningar bárust til lögreglunnar í gærkvöldi um bifreið og fjórhjól með börn í afturdragi á snjóþotum í Kópavoginum (hverfi 203).

Klukkan 20:39 var tilkynnt um manneskju á númerslausu fjórhjóli að draga krakka á snjóþotum í hverfi 203. Viðkomandi fundust ekki þegar lögregla kom á vettvang.

Klukkan22:18 var tilkynnt um bifreið með sleða í eftirdragi í hverfi 203. Ekkert frekar bókað að svo stöddu, segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Ölvaður ökumaður er grunaður um að hafa verið valdur að umferðaróhappi í hverfi 101 í gærkvöldi. Hann reyndist einnig án ökuréttinda og á ótryggðu ökutæki. Ökumaðurinn er vistaður í fangageymslu lögreglu.

Á áttunda tímanum í gærkvöldi lentu tvær bifreiðar í umferðaróhappi í Austurbænum (hverfi 105) og var önnur bifreiðin óökufær en engin slys urðu á fólki.

Enn einn daginn eru nokkrir ökumenn stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Alls voru fimm stöðvaðir í gærkvöldi og voru þeir allir látnir lausir að lokinni sýnatöku en fíkniefni tekin af einum þeirra. Einn þeirra var einnig próflaus.

mbl.is