Nýr búnaður veitir meiri styrk í stigum

Bragi Kristinsson, íbúi á Norðurbrún 1, prófar stigahjálpina undir handleiðslu …
Bragi Kristinsson, íbúi á Norðurbrún 1, prófar stigahjálpina undir handleiðslu Stefáns E. Hafsteinssonar hjá Öryggismiðstöðinni. Ljósmynd/Aðsend

Nýr búnaður sem aðstoðar fólk við að fara upp og niður stiga var tekinn í notkun í liðinni viku á Norðurbrún 1, þar sem eru 60 þjónustuíbúðir á vegum Reykjavíkurborgar. Búnaður af þessu tagi hefur ekki áður verið notaður hér á landi en hann nefnist Assistep og er fluttur inn af Öryggismiðstöðinni.

Um er að ræða sérstakt stigahandrið ásamt handfangi sem gefur fólki, sem er óöruggt að ganga upp eða niður stiga, aukið öryggi. Búnaðurinn hjálpar eldri borgurum og þeim sem þurfa aðstæðna eða heilsu sinnar vegna aukinn stuðning við að nota stiga á öruggan hátt.

Hér er á ferðinni samstarfsverkefni Velferðartæknismiðju Reykjavíkurborgar, Heilsugæslunnar, Snjallborgarinnar og Öryggismiðstöðvarinnar.

Hreiðar Ólafur Guðjónsson, íbúi á Norðurbrún 1, var meðal þeirra fyrstu til að prófa búnaðinn. „Maður á orðið erfitt með gang og þessi búnaður veitir mjög mikið öryggi og stuðning í stiganum,“ segir Hreiðar í tilkynningu um búnaðinn.

Assistep er þróað og framleitt í Þrándheimi í Noregi. Þetta byrjaði sem skólaverkefni hjá nokkrum nemendum sem í framhaldi stofnuðu fyrirtækið Assitech. Samkvæmt upplýsingum frá Öryggismiðstöðinni er búnaðurinn mikið notaður á Norðurlöndum og meginlandi Evrópu og hefur reynst vel.

Algengir notendahópar fyrir búnaðinn eru þeir sem eiga við jafnvægisvandamál að stríða, hafa minni vöðvastyrk, eru í byltuhættu, nota hækjur eða önnur hjálpartæki.

Búnaðurinn hefur einnig reynst vel og aukið styrk einstaklinga t.d. með parkinsons, MS, gigt, helftarlömun sem og aðra taugasjúkdóma. Börn með CP hafa einnig notið góðs af þessari lausn, segir í fréttatilkynningu frá Öryggismiðstöðinni.

Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 7. desember

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »