„Er þetta ekki spilling?“

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Hari

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, spurði forsætisráðherra út í Samherjaskjölin á þingi í morgun. Inga minntist á tölvupóstsamskipti milli útgerðaraðila í samstarfi við Samherja í Póllandi við yfirmenn Samherja þar sem kemur fram að Samherji hafi undir höndum drög að viljayfirlýsingu eða samningi um að efla viðskiptasamband Íslands og Póllands á sviði fiskveiða, fiskeldis og líftækni.

Af hverju er Samherji með í sínum höndum drög að slíkum milliríkjasamningi í sjávarútvegi milli Íslands og Póllands þar sem fyrirtækið er þungt inni með útgerðarrekstur og sölu sjávarafurða? Þeir eru með þennan samning í höndum tveimur mánuðum áður en hann var síðan undirritaður formlega af Gunnari Braga Sveinssyni, þáverandi sjávarútvegsráðherra, fyrir hönd Íslands í júlí 2016,“ sagði Inga.

Hún spurði hvort Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra þætti þetta ekki alvarlegt. 

Hér eru íslensk stjórnvöld að gera milliríkjasamning og hann er í vinnslu í ráðuneytinu og Samherji eru með pappírana undir höndum og veit hvað er í undirbúningi. Er þetta ekki spilling? Hvernig stendur á því að Samherji, sennilegast eitt íslenskra fyrirtækja, var með þetta skjal í höndunum meðan það var í vinnslu í ráðuneytinu eða tíðkast það bara í íslenskri stjórnsýslu að innherjar í atvinnulífinu hafi aðgang að skjölum sem eru í vinnslu, kannski ekki bara milliríkjasamningum heldur líka reglugerðum og lögum?

Inga sagðist ekki sjá annað en að Samherji hafi á þessum tíma verið að nota þess drög að samstarfssamningi í sjávarútvegi milli Íslands og Póllands til að reyna að koma á hliðstæðum samningi milli Namibíu og Póllands varðandi fiskrannsóknir. 

Hefur forsætisráðherra skoðað þessi skjöl? Hafa íslensk stjórnvöld yfir höfuð litið á þau? Þetta er opið allri heimsbyggðinni. Það þarf ekki nema eina tölvu til að sjá.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forsætisráðherra treystir rannsókn héraðssaksóknara

Mér er augljóslega ekki kunnugt um af hverju Samherji var með í sinni vörslu drög að slíkum samningi sem reyndar er alvanalegt að gera milli ríkja. Ég þekki nægjanlega mikið til slíks verklags að ég veit að við undirbúning slíkra samninga eru þeir oft kynntir heildarsamtökum á sviði atvinnugreina. En nákvæmlega hvernig þetta vill til þekki ég augljóslega ekki, enda var ég ekki starfandi sjávarútvegsráðherra þá. Mér er til efs að sá starfandi sjávarútvegsráðherra sem þingmaður nefndi hafi nokkrar skýringar á því heldur,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.

Forsætisráðherra bætti því við að héraðssaksóknari rannsakaði þau mál sem hefðu komið upp þar sem meintar mútugreiðslur Samherja til stjórnvalda í Namibíu væru skoðaðar. Hún sagðist bera fullt traust til héraðssaksóknara.

mbl.is