Andlát: Bohuslav Woody Vasulka

Bohuslav Woody Vasulka
Bohuslav Woody Vasulka

Bohuslav Woody Vasulka eða Tímóteus Pétursson listamaður lést í Santa Fe í Nýju-Mexíkó í Bandaríkjunum 20. desember sl.

Hann fæddist í Brno í Tékkóslóvakíu 20. janúar 1937 og nam verkfræði í Industrial Engineering School of Brno áður en hann fór til náms í FAMU–kvikmyndaskólanum í Prag. Þar hitti hann fiðluleikarann Steinunni Briem Bjarnadóttur, eða Steinu, árið 1959 og bað hann hennar í sömu andrá. Hann varð einn af tengdasonum Íslands eftir að þau giftust, fékk íslenskan ríkisborgararétt og nafnið Tímóteus Pétursson.

Sumarið 1964 vann Woody að tveimur kvikmyndum á Íslandi: Velrybarska Stanice um hvalstöðina í Hvalfirði og Sezona v Seydisfjordur – Vertíð á Seyðisfirði um síldarævintýrið, báðar merkilegar heimildir um Ísland þess tíma.

Saman fluttu Steina og Woody til Bandaríkjanna á sjöunda áratug síðustu aldar eftir stutta viðveru á Íslandi. Þau settust að í New York þar sem þau kynntust vídeótækni. Saman notuðu þau þekkingu sína í tónlist og kvikmyndagerð sem undirstöðu í nýrri túlkun í myndlist með hinni nýju vídeótækni. Fjöldamörg verk liggja eftir Woody bæði á filmu, vídeó og ljósmyndum. Einnig setti hann upp fjölda innsetninga og eru mörg verka hans í stærstu listastöfnum Bandaríkjanna og Evrópu. Steina og Woody stofnuðu The Kitchen í New York 1972 til þess að sýna verk sín og annarra sem störfuðu í vídeó, tónlist og myndlist og starfar það enn í dag. Árið 2015 opnaði Listasafn Íslands Vasulka stofu á safninu sem sýnir verk þeirra og varðveitir hluta af arfleifð þeirra. Vasulka tvíeykið: Steina og Woody er hluti af listamannahópi Berg Contemporary og fyrr á árinu var frumsýnd kvikmyndin Vasulka áhrifin – The Vasulka Effect á Skjaldborg og Bíó Paradís sem fjallar um líf og störf þeirra beggja. Síðan 1980 hafa þau búið í Santa Fe í Nýju-Mexíkó. Steina lifir mann sinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert