Flugeldum fyrir milljónir stolið af björgunarsveit

Umtalsverðu magni flugelda var stolið af Hjálparsveit skáta í Kópavogi …
Umtalsverðu magni flugelda var stolið af Hjálparsveit skáta í Kópavogi yfir jólahátíðina. Söluverðmæti flugeldanna er talið vera um 2 milljónir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Yfir jólahátíðina var brotist inn hjá Hjálparsveit skáta í Kópavogi og umtalsverðu magni af flugeldum stolið. Voru flugeldarnir í gámi sem stóð tímabundið á lóð sveitarinnar, en lásar gámsins voru skornir upp með slípirokk.  Aðalsteinn Maack, formaður sveitarinnar, segir í samtali við mbl.is að með þessu verði sveitin af vörum með söluverðmæti upp á rúmlega tvær milljónir.

Í heildina var tekið eitt bretti af flugeldum og er því talið líklegt að notaður hafi verið sendibíll til að flytja vörurnar, enda ekki sjálfgefið að slíkt magn komist fyrir í minni bílum.

Gámarnir voru læstir með lásum, en þjófarnir hafa skorið á …
Gámarnir voru læstir með lásum, en þjófarnir hafa skorið á þá með slípirokk og stolið um einu bretti af flugeldum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Félagar í sveitinni unnu að því að skipa flugeldum í gáma á Þorláksmessu, en ekki uppgötvaðist um stuldinn fyrr en í morgun. Var því brotist inn á því tímabili að sögn Aðalsteins. Á aðfangadag fóru aðrir björgunarsveitarmenn í sveitinni í útkallið við Dyrhólaey, en Aðalsteinn segir að enginn þeirra hafi tekið eftir neinum ummerkjum við gáminn þá. Hins vegar sé ekki hægt að útiloka að brotist hafi verið inn aðfaranótt aðfangadags þar sem björgunarfólkið var lítið að huga að gámunum á leið í útkallið.

Aðalsteinn segir að meðal annars hafi talsverðu magni af sérmerktri skotköku, sem var merkt 50 ára afmæli HSSK, verið stolið. „Þetta er horfið nú og er töluvert tjón fyrir okkur. Nú er málið í höndum lögreglu og við verðum að treysta á að þessu verði skilað,“ segir Aðalsteinn.

Flugeldum fyrir rúmlega tvær milljónir var stolið af Hjálparsveit skáta …
Flugeldum fyrir rúmlega tvær milljónir var stolið af Hjálparsveit skáta í Kópavogi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann segir allt svona tjón vega þungt, enda sé um sjálfboðastarf að ræða sem reiði sig að mestu leyti á fjáraflanir sem þessar. „Þetta er bagalegt og það er erfitt að fara inn í vertíðina með þetta á bakinu,“ segir hann. „En þetta er fyrst og fremst sorglegt.“

Aðalsteinn biður fólk sem kunni að búa yfir upplýsingum um stuldinn eða þýfið að snúa sér til lögreglunnar sem sé alfarið með málið á sínum höndum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert