Flugeldar endurheimtir og fjórir handteknir

Umtalsverðu magni flugelda var stolið af Hjálparsveit skáta í Kópavogi …
Umtalsverðu magni flugelda var stolið af Hjálparsveit skáta í Kópavogi yfir jólahátíðina. Söluverðmæti flugeldanna er talið vera um 2 milljónir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í gærkvöldi voru fjórir aðilar handteknir grunaðir um þjófnað á flugeldum sem stolið var frá Hjálpasveit Skáta í Kópavogi yfir jólahátíðina og verða þeir yfirheyrðir í dag.

Við húsleit fundust flugeldarnir sem leitað var að og hefur sveitin því fengið sitt til baka. Fleiri munir fundust við leitina sem taldir eru tengjast öðrum innbrotum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar kemur einnig fram að lögregla muni ekki veita frekari upplýsingar um málið að sinni.

Lítur út fyrir að hafa verið þaulskipulagt

Aðalsteinn Maack, formaður sveitarinnar sagði í samtali við mbl.is í gær að söluverðmæti hinna stolnu flugelda væri upp á rúmlega tvær milljónir króna. Flugeldarnir voru settir í gáma á Þorláksmessu en ekki uppgötvaðist um stuldinn fyrr en í gærmorgun. 

Í heildina var tekið eitt bretti af flugeldum og því er talið líklegt að sendibíll hafi verið notaður við þjófnaðinn. Þá var slípirokkur notaður til að skera upp lása gámsins.

Flugeldarnir voru í læstum gámum. Slípirokkur var notaður til að …
Flugeldarnir voru í læstum gámum. Slípirokkur var notaður til að skera lásinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjálparsveitin gríðarlega þakklát lögreglunni

Guðmundur K. Einarsson, formaður flugeldanefndar Hjálparsveita skáta, segir sveitina gríðarlega þakkláta lögreglunni fyrir skjót og góð vinnubrögð við að leysa málið og endurheimta flugeldanna. Hann var við óða önn að fara yfir varninginn þegar mbl.is sló á þráðinn til hans en við fyrstu sýn lítur út fyrir að allir flugeldarnir hafi verið endurheimtir. Þá lítur ekki út fyrir að eitthvað hafi verið átt við þá og þeir séu því í söluhæfu ástandi.

„Þetta er óverulegt tjón en samt leiðinlegt. Við erum sátt að þetta sé leyst og erum gríðarlega þakklát lögreglunni fyrir að hafa leyst þetta mál skjótt og vel. Það er ekkert búið að eiga við þá og þeir líta alveg eins og út og þeir voru inni í húsi hjá okkur. Við eigum eftir að fara yfir það hvort þeir hafi tjónast eitthvað í þessu brölti en það er bara næsta skref. Við höfum ekki haft tíma til þess ennþá.“

Fréttin var uppfærð klukkan 10:50 með viðtali við Guðmund.

Guðmundur K. Einarsson, formaður flugeldanefndar HSSK.
Guðmundur K. Einarsson, formaður flugeldanefndar HSSK. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is