Svifryk minna en síðustu ár

Svifryksmengun frá flugeldum var minni í ár en í fyrra.
Svifryksmengun frá flugeldum var minni í ár en í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Loftmengun mældist langmest á höfuðborgarsvæðinu um klukkan eitt í nótt. Svifryksmengun á mælum Umhverfisstofnunar í Dalsmára var tæplega 290 míkrógrömm á rúmmeter, en heilsuverndarmörk svifryks eru 50 míkrógrömm á rúmmeter. 

Mest magn svifryks mældist við Grensásveg, tæplega 320 míkrógrömm á rúmmeter. Svifryksmengun var öllu meiri í fyrra, en þá var magn PM10 svifryks í Dalsmára mest 1.036 míkrógrömm á rúmmeter. Árið 2018 aftur á móti fór gildi PM10 svifryks yfir 4.500 míkrógrömm á rúmmeter. 

Líklegt er að örlítill vindur og rigning í nótt á höfuðborgarsvæðinu hafi talsvert að segja þegar kemur að því að mengunin mælist nú minni en síðustu ár. 

Samkvæmt vefsíðu Umhverfisstofnunar eru loftgæði góð á öllum mælum nema tveimur. Við Kríuvarða eru loftgæði miðlungs og við Nesjavallavirkjun eru loftgæðin slæm, en ætla má að loftgæðin á þeim stöðum ráðist síður af flugeldum. 

mbl.is