Flutningaskipið bundið við bryggju á ný

Búið er að koma togi í stórt flutningaskip, sem rak upp í olíugarð í Hafnarfjarðarhöfn í nótt eftir að festingar slitnuðu í óveðrinu sem nú gengur yfir landið, en unnið er að því að binda skipið aftur við bryggju. Nokkurn tíma tók að koma togi í skipið, en tveir dráttarbátar voru svo notaðir í að draga það frá olíugarðinum að hafnarbakkanum aftur.

Samkvæmt hafnarstarfsmanni Hafnarfjarðarhafnar á vettvangi gekk vel að draga skipið, eftir að tveir bátar voru fengnir í verkið og er skipið þessa stundina að leggjast við bryggju og unnið að því að festa það á ný.

Um er að ræða fjög­ur þúsund tonna er­lent flutn­inga­skip. Skip­stjóri skips­ins hafði sam­band við stjórn­stöð Land­helg­is­gæsl­unn­ar klukk­an 5:30 og sagði skipið vera að reka upp í ol­íug­arðinn. Varðskipið Týr var þegar í stað kallað út sem og drátt­ar­bát­ar frá Hafnar­f­irði og Reykja­vík. Þá hafa björg­un­ar­sveit­ir sömu­leiðis verið kallaðar út.

Uppfært: Samkvæmt upplýsingum sem áhöfn Franciscu gaf hafnarstarfsmönnum hafði hnaskið við olíugarðinn ekki þau áhrif að gat hefði komið á olíutanka eða að olía hefði lekið út úr skipinu. Ekki liggja fyrir aðrar upplýsingar um skemmdir á skipinu, en ekki þótti rétt að fara með það úr höfninni ef skemmdir hefðu orðið.

Búið er að festa skipið við bryggju.
Búið er að festa skipið við bryggju. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert