Þolinmæði hjúkrunarfræðinga á þrotum

„Hvort sem stjórnvöldum líkar það betur eða verr þarf umfangsmiklar …
„Hvort sem stjórnvöldum líkar það betur eða verr þarf umfangsmiklar lausnir til þess að bæta laun og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta. Byrja þarf samtalið fyrir alvöru ef ekki á illa að fara. Þolinmæði hjúkrunarfræðinga er á þrotum,“ segir í tilkynningu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Staðan í íslensku heilbrigðiskerfi er grafalvarleg og aðgerða er þörf ef ekki á illa að fara. Þetta er mat Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh)  sem segir jafnframt að þolinmæði hjúkrunarfræðinga sé á þrotum. 

„Hvort sem stjórnvöldum líkar það betur eða verr þarf umfangsmiklar lausnir til þess að bæta laun og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta. Byrja þarf samtalið fyrir alvöru ef ekki á illa að fara,“ segir í tilkynningu félagsins, sem rímar við ályktun hjúkrunarráðs Landspítalans frá því í desember. 

Ríflega níu mánuðir eru liðnir frá því að gerðardómur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga rann út og þar með miðlægur kjarasamningur félagsins við fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Síðasti kjarasamningur sem félagið skrifaði undir var árið 2014 og hafa hjúkrunarfræðingar því ekki samið um kaup og kjör við íslensk stjórnvöld í meira en fimm ár.

Stefnir í verkfallsaðgerðir

Félagið segir samningaviðræður ganga mjög hægt og segir félagið þær lausnir sem Fíh hefur lagt fram sem miða að því að leysa kjaramál hjúkrunarfræðinga hafa fengið lítinn hljómgrunn. „Hvort sem stjórnvöldum líkar það betur eða verr þarf umfangsmiklar lausnir til þess að bæta laun og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta. Byrja þarf samtalið fyrir alvöru ef ekki á illa að fara. Þolinmæði hjúkrunarfræðinga er á þrotum,“ er haft eftir Gunnari Helgasyni, sviðsstjóra kjarasviðs Fíh, í frétt á vef félagsins. 

Eins og staðan er nú í viðræðum virðist stefna í verkfallsaðgerðir ef ekki verður breyting á stefnu stjórnvalda í samningaviðræðunum. 

„Hvers vegna er ástandið með þessum hætti og hvers vegna eru Íslendingar alltaf að grípa til þessara meingölluðu aðferða sem verkfall er? Getur verið að um sé að kenna skorti á stefnu íslenskra stjórnvalda varðandi mönnunar- og launamál heilbrigðisstétta, starfsmannastefnu og umræðu og aðgerðum til að taka á kynbundnum launamun innan kerfisins?“ spyr Fíh.

mbl.is