Fólkið varð líklega úti

Tvö lík, af karli og konu, fundust á Sólheimasandi fyrr …
Tvö lík, af karli og konu, fundust á Sólheimasandi fyrr í dag. Kort/mbl.is

„Það blasir við að þau hafi orðið úti,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við mbl.is. 

Lögreglu barst tilkynning um lík konu á Sólheimasandi um hádegisbil í dag, skammt frá göngustíg að flugvélarflaki sem er þar og er vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Lög­reglu­menn fóru þegar á vett­vang og í fram­haldi af skoðun þeirra á vett­vangi var kölluð björg­un­ar­sveit til frek­ari leit­ar. 

Um klukkan 14 fannst lík karl­manns skammt frá þeim stað sem kon­an lá. Dánarorsök mun ekki liggja fyrir fyrr en að lokinni krufningu. „Þá kemur í ljós hvort það eru einhverjir áverkar eða svoleiðis,“ segir Oddur. 

Lögreglunni á Suðurlandi hafði ekki borist tilkynning um að einhvers væri saknað á þessu svæði síðustu daga. 

Vís­bend­ing­ar eru um að um sé að ræða par frá Kína sem var að ferðast sam­an og hef­ur sendi­ráð Kína verið upp­lýst um stöðuna. Bíll sem tal­inn er í leigu pars­ins er á bíla­stæði við Sól­heimasand og vitað er að hann fór um Hvolsvöll á aust­ur­leið kl. 14:55 þann 13. janú­ar.

Lögreglan er með upplýsingar um þjóðerni fólksins en ekki persónuupplýsingar og því liggur ekki fyrir hvenær fólkið kom til landsins.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi.
Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert