Samið til tveggja ára um rekstur hjúkrunarheimila

Heilbrigðisráðherra bindur miklar vonir við að sú greiningarvinna sem ákveðið …
Heilbrigðisráðherra bindur miklar vonir við að sú greiningarvinna sem ákveðið hefur verið að ráðast í skapi betri umgjörð um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimila til framtíðar. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) hafa undirritað 43 samninga um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimila á landinu til næstu tveggja ára en samningslaust var um þjónustu þeirra á árinu 2019. 

Samið var við hvern og einn rekstraraðila en samningarnir eru samhljóða og taka til 2.468 hjúkrunar- og dvalarrýma. Andvirði þeirra nemur um 32,5 milljörðum króna á ári á verðlagi þessa árs. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur staðfest samningana sem gilda til árloka 2021, að því er fram kemur í tilkynningu frá Stjórnarráðinu

„Það er mjög mikilvægt að þessir samningar hafi náðst. Eins bind ég miklar vonir við að sú greiningarvinna sem ákveðið hefur verið að ráðast í skapi betri umgjörð um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimila til framtíðar,“ er haft eftir Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í tilkynningu. 

Hún bendir á að þetta sé í samræmi við stjórnarsáttmálann þar sem áhersla er lögð á stórsókn í uppbyggingu hjúkrunarrýma, en einnig fjallað um að styrkja rekstrargrundvöll hjúkrunarheimila, samhliða áherslu á að efla aðra þjónustuþætti svo sem heimahjúkrun, dagþjálfun og endurhæfingu. Þá sé rekstrarumhverfi og rekstrarstaða hjúkrunarheimila og þörfin fyrir endurskoðun og úrbætur einnig sérstakt umfjöllunarefni í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar við fjárlagagerð þessa árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert