Lögreglumaður ákærður vegna handtöku

Karlmaður á sjötugsaldri krefst 2,7 milljóna króna í bætur auk vaxta vegna „frelsissviptingar, niðurlægjandi meðferðar, harðræðis og ofbeldis“ sem hann segist hafa verið beittur af hálfu lögregluþjóns.

Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru vegna málsins, en Stöð 2 greindi fyrst frá.

Atvikið átti sér stað á skemmtistaðnum Irishman Pub í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt 18. mars í fyrra.

Fram kemur í skaðabótakröfu að dyravörður hafi bannað manninum að fara með glas út af staðnum. Dyravörðurinn hafi verið á tali við tvo lögregluþjóna og í framhaldinu hafi annar þeirra stokkið á brotaþola, rifið í hálsmálið á honum, hent honum út af staðnum og út á gangstétt.

Því næst hafi brotaþoli sett hendur sínar ósjálfrátt í varnarstöðu þegar lögregluþjónninn gekk að honum. Þetta hafi lögregluþjónninn túlkað sem árás á sig. Hann hafi stokkið á brotaþola og tekið hann harkalegu hálstaki og rykkt sér þannig að hann lenti á gólfi staðarins.

Því næst var maðurinn handtekinn.  

Fram kemur að brotaþoli sé 64 ára gamall og hafi ekkert gert af sér sem réttlætti „þessar harkalegu og tilefnislausu aðgerðir lögreglunnar“.

Ekki hafi verið tilefni til handtöku en greint er frá því í skaðabótakröfunni að aðferðir lögregluþjónsins við handtökuna hafi verið „strax of aðgangsharðar miðað við hið ætlaða tilefni“.

Tvö högg í andlitið 

Í ákæru héraðssaksóknara kemur fram að lögregluþjónninn sé ákærður fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi með því að hafa farið offari og ekki gætt lögmætra aðferða við handtöku mannsins.

Fram kemur að lögregluþjónninn hafi slegið manninn aftan í höfuðið við að setja hann inn í lögreglubifreið, slegið hann tveimur höggum í andlit, þrýst hné sínu í háls og höfuð hans og þvingað handjárnaða handleggi hans ítrekað í sársaukastöðu fyrir aftan bak þar sem maðurinn lá á gólfi lögreglubifreiðar á leiðinni á lögreglustöðina á Hverfisgötu, með þeim afleiðingum að maðurinn tognaði og hlaut ofreynslu á hálshrygg.

mbl.is