Kröfur til innviða breytast með tímanum

Sagði Sigurður Ingi að verkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu væri að …
Sagði Sigurður Ingi að verkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu væri að byggja upp ný hverfi sem kölluðu á minni ferðalög innan þess, þannig að verslanir, skólar og atvinna væri í göngufæri við fólk í þéttari byggð, sama hvort um væri að ræða ný hverfi eða gróin. mbl.is/Eggert

Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra samgöngumála, segir mikilvægt að auka umferðaöryggi á suðvesturhorninu, eða svokölluðu Hvítár-Hvítár-svæði þar sem mikill meirihluti íbúa landsins býr. Þá segir hann kröfur til samgönguinnviða mismunandi eftir landshlutum. 

Þetta kom fram í framsögu hans á ráðstefnu Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands undir yfirskriftinni Áskoranir í samgöngum – staða og framtíð. Í erindum þeirra sem tala á ráðstefnunni verða samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu aðallega í brennidepli, frá ýmsum sjónarhornum.

Sigurður þakkaði í erindi sínu Verkfræðistofnun fyrir að taka samgöngumálin til umræðu í hátíðarsal Háskóla Íslands í dag og fór nokkuð ítarlega yfir sína sýn á þau. Hann sagði að uppbygging nútímasamgönguinnviða hefði alltaf verið töluverð áskorun í fámennu en stóru landi líkt og Ísland er og kröfurnar til samgönguinnviða hefðu breyst með tíð og tíma og væru mismunandi eftir því hvar á landinu fólk ætti heima.

Ráðherra rifjaði upp að ekki væru nema 46 ár síðan hringtengingu vegakerfisins um landið lauk og að þegar þeim áfanga var lokið hefði rökrétt næsta skref verið talið að leggja allan hringveginn bundnu slitlagi. Það tók hins vegar 45 ár að ljúka því verkefni, sem kláraðist þegar síðasti spottinn um Berufjarðarbotn var malbikaður síðasta sumar.

Hann ræddi um þær áskoranir sem höfuðborgarsvæðið stendur frammi fyrir og áætlað er að mæta þegar kemur að samgöngum og sagði þær helst vera tafir, umferðarþunga, loftmengun og ný áherslumál í skipulagsmálum.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra á ráðstefnunni í Háskóla …
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra á ráðstefnunni í Háskóla Íslands í dag. mbl.is/Arnar Þór

Sagði Sigurður Ingi að verkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu væri að byggja upp ný hverfi sem kölluðu á minni ferðalög innan þess, þannig að verslanir, skólar og atvinna væri í göngufæri við fólk í þéttari byggð, sama hvort um væri að ræða ný hverfi eða gróin.

Skoska leiðin og aukið umferðaröryggi

Þá ræddi ráðherra einnig um skosku leiðina svokölluðu í innanlandsfluginu, sem hann sagði afar mikilvægan samgöngumáta fyrir þá íbúa sem fjærst búa frá höfuðborgarsvæðinu, en skoska leiðin er á teikniborðinu í ráðuneyti hans og felur í sér greiðsluþátttöku stjórnvalda í innanlandsflugi fyrir íbúa á ákveðnum svæðum landsins.

Sigurður Ingi talaði einnig um mikilvægi þess að auka enn umferðaröryggi á suðvesturhorninu, hinu svokallaða Hvítár-Hvítár-svæði, þar sem 84% íbúa landsins búa í dag. Sagði Sigurður Ingi að eflaust hefði enginn ætlað sér að byggja landið þannig upp að einungis 16% íbúa væru utan þessa svæðis, en margar ákvarðanir hefðu verið teknar sem hefðu leitt þessa íbúadreifingu af sér. Þessum íbúafjölda á suðvesturhorninu þyrfti að mæta með því að byggja upp umferðarþyngstu vegi og tvöfalda þá til að auka umferðaröryggið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert