Nýfermdur á tíræðisaldri

Baldvin Ársælsson tekur daginn snemma og hjólar á þrekvél á …
Baldvin Ársælsson tekur daginn snemma og hjólar á þrekvél á Grund við fyrsta hanagal. mbl.is/Rax

„Betra seint en aldrei,“ segir prentarinn Baldvin Ársælsson, sem á 92 ára afmæli í dag og var tekinn inn í kaþólska söfnuðinn fyrir skömmu. „Ég var blessaður í Landakotskirkju og er því nýfermdur.“

Sem fyrr liggur vel á Baldvini, eða Dússa eins og hann hefur gjarnan verið nefndur frá tveggja ára aldri. „Það kom þannig til að Hreiðari bróður var ekki hugað líf skömmu eftir fæðingu og þar sem enginn mátti deyja án þess að hafa verið gefið nafn áður var drifið í að skíra hann og ég, um tveggja ára, var skírður í leiðinni.“ Þess má geta að Hreiðar hresstist til muna, var mikill íþróttamaður, fastamaður í gullaldarliði KR í fótboltanum á sjötta og sjöunda áratug liðinnar aldar, landsliðsmaður, þjálfari og dómari. „Ég var samt ekkert í boltanum, en dæmdi þó í um fimm ár,“ segir Dússi, sem ólst upp í níu systkina hópi á Seljaveginum.

Dússi hefur búið á Grund hjúkrunarheimili við Hringbraut í Reykjavík í tæpt ár og unir hag sínum vel. „Hérna er dekrað við mig og ég hef allt til alls. Ég tek daginn snemma, vakna fyrir allar aldir, skelli mér út á gólf og geri leikfimiæfingar áður en ég fer niður í salinn og hjóla í 45 mínútur til klukkutíma á þrektæki. Fæ síðan heita bakstra á eftir. Það verður ekki betra, ég held mér í formi og hef það bara gott. Áður gekk ég nokkra hringi í einu í kringum elliheimilið en það er betra að bæta úthaldið á hjólinu í salnum.“

Kirkjurækinn

Þorbjörg Guðmundsdóttir, eiginkona Dússa og fyrrverandi auglýsingastjóri Ríkisútvarpsins, féll frá 2015 eftir að hafa búið á Grund í nokkur ár. „Ég fór til Distu á hverjum degi og kom við í Landakotskirkju vikulega og bað fyrir henni,“ segir Dússi um trúmálin. „Eftir að ég flutti hingað fór ég að venja komur mínar aftur í kirkjuna og þá kom í ljós að þar eru margir náskyldir mér. Ég hef því tengst kaþólsku kirkjunni nánari böndum og kann ágætlega við það, en það versta er að ég nýt starfsins ekki nógu vel vegna þess að sjónin er farin að bila. En það er hugsað vel um mig enda er þetta fjölskyldulegt umhverfi og svo fer Ása, dóttir okkar Distu, með mig í messu á sunnudagsmorgnum.“

Dússi tekur þátt í dagskránni á Grund eftir mætti og lék meðal annars stórt hlutverk í tískusýningu ekki alls fyrir löngu. „Það vantaði einhvern nógu frakkan til þess að fara í þetta og ég sagði já án þess að vita hvað ég var að fara út í, en þetta var gaman.“

Lengst af starfaði Dússi sem setjari í Steindórsprenti, þar sem hann lærði. Síðan kom hann Pappírsveri, pappírspokafyrirtæki Haraldar Björnssonar, á skrið og fór þaðan í Kassagerðina, þar sem hann var fljótlega beðinn um að taka að sér starf prentara. „Ég sagði sem var að ég væri setjari og vissi ekki hvað sneri fram og hvað aftur á prentvélunum, en varð samt við óskunum með því skilyrði að ég fengi námssamning. Þar með varð ég tvöfaldur, bæði setjari og prentari, og er því tvíefldur!“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert