Leki í Fossvogsskóla

Miklar endurbætur voru gerðar á Fossvogsskóla vegna rakaskemmda í haust.
Miklar endurbætur voru gerðar á Fossvogsskóla vegna rakaskemmda í haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Upp hefur komið leki í Fossvogsskóla, en lekið hefur með þakgluggum í svokallaðri Vesturlandsbyggingu skólans, sem voru endurnýjaðir í haust. Hefur lekinn valdið sjáanlegum skemmdum á innra byrði þaksins, að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Þar segir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir lekann síðan í desember, en að viðgerðir hafi ekki tekist að fullu. Þá hafi slæmt tíðarfar undanfarinna vikna gert viðgerðarmönnum erfitt fyrir.

„Reykjavíkurborg mun ganga hratt og vel til verks um leið og færi gefst til að koma í veg fyrir lekann og lagfæra skemmdir sem hafa orðið vegna hans.“

Miklar endurbætur voru gerðar á Fossvogsskóla vegna rakaskemmda í haust og farið verður yfir með fagaðilum hverju hafi verið ábótavant við verkið.

mbl.is