Leggja lokahönd á undirbúning

Unnið er að viðgerðum á Fossvogsskóla.
Unnið er að viðgerðum á Fossvogsskóla. mbl.is/Hallur Már

„Þetta gengur nokkuð vel. Við erum að leggja lokahönd á að undirbúa þann hluta skólans sem verður nýttur undir skólastarfið,“ segir Aðalbjörg Ingadóttir, skólastjóri Fossvogsskóla, um skólastarfið sem hefst formlega í næstu viku. 

Talsverðar framkvæmdir hafa staðið yfir og standa enn á húsnæði skólans. Með góðu skipulagi og útsjónarsemi er hægt að koma öllum nemendum skólans fyrir í húsnæðinu á meðan viðgerðir standa yfir, að sögn Aðalbjargar. Breytingar á skólsafninu gera það að verkum að við getum meðal annars nýtt það betur undir kennslu en áður. 

Einni álmu skólans, vestanmegin sem nefnist Vesturland verður lokað. Þar reyndist ástand þaks­ins verra en áður var talið og áætluð verklok þar verða í nóvember.  

Í mars á síðasta skóla­ári var greint frá myglu­skemmd­um á skóla­hús­næðinu og þurfti að fara í víðtæk­ar lag­fær­ing­ar á öll­um þrem­ur álm­um skól­ans; Vest­ur­landi, Aust­ur­landi og Meg­in­landi. Vegna þeirr­ar vinnu var á fjórða hundrað nem­end­um skól­ans fund­in aðstaða í höfuðstöðvum KSÍ og í Þrótt­ara­heim­il­inu í Laug­ar­dal. Voru rútu­ferðir frá Foss­vogi yfir í Laug­ar­dal­inn. 

„Auðvitað þrengir að skólastarfinu á meðan á þessu stendur en við erum sátt að hafa lent því þannig að við erum öll undir sama þaki. Þetta auðveldar alla samvinnu og einfaldar hlutina mikið,“ segir Aðalbjörg. 

Auk framkvæmdanna innanhúss er einnig  unnið á lóð skólans austanmegin við hann. Þá er unnið að því að bæta aðstöðu sunnan megin í skólahúsnæðinu þar sem frístundastarf skólans fer fram. Aðalbjörg bendir á að þrátt fyrir að framkvæmdir standi yfir á skólanum mun það ekki hafa teljandi áhrif á skólastarfið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert