Barátta fyrir inngöngu í ESB mun hefjast

„Það sem mun gerast er að barátta fyrir aðildarumsókn [Bretlands] að Evrópusambandinu hefst á nýjan leik og málið heldur áfram. Ég er alveg viss um það.“ Þetta segir Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði, í samtali við mbl.is í tilefni útgöngu Breta úr Evrópusambandinu í gærkvöld.

Líkt og bent hefur verið á segir Eiríkur enga efnislega breytingu hafa átt sér stað í gærkvöld, fyrir utan að fulltrúar Bretlands hjá Evrópusambandinu snúa heim. „Það gerist ekkert í dag.“

Gríðarstór dagur í stjórnmálasögunni

Eiríkur segir daginn í gær þó meira en bara táknrænan. „Formleg útganga er í dag. Það er hin efnislega breyting.“ Þá segir hann aðspurður að um stóran dag sé að ræða í stjórnmálasögunni. „Þetta er gríðarstór dagur í stjórnmálasögunni. Þetta er einn stærsti dagur í sögu evrópskra stjórnmála. Það er engin spurning. Þetta er í fyrsta sinn sem aðildarríki Evrópusambandsins gengur út úr því. Það er auðvitað atburður sem er merkilegur af augljósum ástæðum.“ 

Starfsmenn taka niður breska fánann utan við Evrópuþingið í Brussel …
Starfsmenn taka niður breska fánann utan við Evrópuþingið í Brussel í gærkvöld. AFP

Spurður hvort hann telji, þegar í framtíðinni horft verður um öxl, að litið verði á daginn sem sigur fyrir Breta, kveður Eiríkur nei við. „Það er ekki unnt að líta svo á. Þetta er sigur fyrir helming bresku þjóðarinnar og tap fyrir helming bresku þjóðarinnar. Það sem gerist í þessu máli er að klofningur bresku þjóðarinnar opinberast með mjög afgerandi hætti. Um leið og hluti Breta fagnar er annar jafnstór hluti sem syrgir. Fyrir mjög marga Breta er þetta gríðarlegt sorgarferli sem þeir ganga í gegnum núna á sama tíma og fögnuður brýst út meðal hinna.“

Tímaspursmál hvenær baráttan hefst á ný

Sem fyrr segir er Eiríkur handviss um að barátta fyrir aðildarumsókn Breta til Evrópusambandsins hefjist á ný. „Það er bara spursmál um tíma hvenær það gerist. Það er ekki víst að það gerist strax. Bretar eru nýgengnir út og kannski ekki stemning fyrir því í augnablikinu en vegna þess hvernig þetta gerist, og hvernig þjóðin er klofin í málinu, er óumflýjanlegt að málið haldi áfram.“

Þá bendir Eiríkur á að leiðtogar í vestrænum stjórnmálum stoppi jafnan stutt við í dag, að Þýskalandi undanskildu, og því geti „pólaríseringar“ verið miklar á stuttum tíma. Vel geti verið að Evrópusambandssinni haldi um stjórnartaumana í Bretlandi innan fárra ára. 

Dr. Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði.
Dr. Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði. mbl.is/Hari
mbl.is

Bloggað um fréttina