Gisti úti eftir höfnun á Íslandi

Ahmad Ata.
Ahmad Ata. Mynd/Skjáskot úr Kveik

Ahmad Ata frá Pakistan er einn þeirra hælisleitenda sem er fylgt eftir í þættinum Kveik sem var sýndur í kvöld. Hann sótti þrívegis um hæli á Íslandi en fékk alltaf þær upplýsingar að hann hefði þegar fengið hæli í Grikklandi og ætti að fara þangað aftur. Fyrstu nóttina eftir komuna til Grikklands dvaldi hann á flugvellinum og þá næstu undirbjó hann sig undir að sofa úti.

Í þættinum er fjallað um stöðu flóttamanna og hælisleitenda í Grikklandi en á árunum 2015 til 2019 voru 35 einstaklingar sendir frá Íslandi til Grikklands, flestir frá Afganistan og Sýrlandi. Í Grikklandi nýtur fólkið alþjóðlegrar verndar.

Þorsteinn Gunnarsson.
Þorsteinn Gunnarsson. Mynd/Skjáskot úr Kveik

Ekki brotið kerfisbundið á réttindum

Þorsteinn Gunnarsson, settur forstjóri Útlendingastofnunar, segir að ekki sé verið að brjóta kerfisbundið á réttindum flóttafólks og hælisleitenda í Grikklandi þó svo að ákveðnir erfiðleikar steðji að þeim.

„Það getur verið mjög erfitt að koma undir sig fótunum og nýta þessa þjónustu. En að okkar mati er almennt í öllum grundvallaratriðum verið að virða þessi réttindi sem þurfa að vera til staðar,“ segir Þorsteinn í viðtali við Kveik. 

Að sögn Þorsteins hefur fólk sem sækir hér um hæli aðgengi að heilbrigðisþjónustu og skólavist fyrir börnin. Hann segir efnahagslegar aðstæður fólks vissulega hafa verið erfiðar og erfitt geti verið að fá atvinnu eða húsnæði en það eigi ekki að hafa vægi í málunum.

Flóttamenn á grísku eyjunni Lesbos í síðasta mánuði.
Flóttamenn á grísku eyjunni Lesbos í síðasta mánuði. AFP

Með hagsmuni barnsins að leiðarljósi 

Hann segir Útlendingastofnun taka viðtöl við börn allt niður í sex ára sem koma hingað í fylgd. „Þar sem við erum að leitast eftir að upplýsa hvaða sjónarmið barnið hefur fram að færa. Og hvað því finnst um þessar aðstæður sem það er í. Og allar ákvarðanir okkar, eins og annarra stjórnvalda, þurfa að vera teknar með bestu hagsmuni barnsins að leiðarljósi,“ segir hann við Kveik og bætir við aðspurður að vinnubrögðin séu í samræmi við skilmála Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Einnig nefnir að hann að það sé löggjafans að ákveða breytingar ef vilji er til að breyta vinnulagi Útlendingastofnunar.

mbl.is