„Við skömmumst okkar“

Miklu magni af innfluttum ostum var hent í gám við …
Miklu magni af innfluttum ostum var hent í gám við verslun Hagkaupa í Skeifunni nýverið í stað þess að gefa hana eða reyna að selja á niðursettu verði. mbl.is/Hjörtur

„Okkur verður stundum á í messunni og þegar verkferlarnir brotna þá gerast hlutir sem eiga ekki að gerast. Við skömmumst okkar fyrir að sjá svona myndir og erum svekkt út í sjálfa okkur fyrir þetta. Við notum þetta til að gyrða okkur í brók og teljum okkur verða að gera betur en þetta,” segir Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, um innflutta osta sem var hent í gám við Hagkaup í Skeifunni nýverið. Ostarnir voru rúmlega 300 talsins, að sögn Sigurðar.

Sigurður segir að farið verði yfir stöðu þessara mála nánar á fundi í dag. Í verslun Hagkaupa er einn starfsmaður í heilu stöðugildi sem fylgist eingöngu með dagsetningum í hverri verslun og vinnur að því að lágmarka þetta tjón.  

„Öll rýrnun er eitthvað sem við viljum ekki sjá. Kaupmenn reyna ekki að flytja inn til landsins vörur frá Frakklandi til þess eins að henda þeim í gáma. Það kemur verst við okkur sjálfa. Okkar daglega barátta gengur út á að minnka alla rýrnun sama hvar hún er í kerfinu því það hjálpar okkur í rekstri fyrirtækjanna,“ segir Sigurður. 

Almenna regla Hagkaupa er sú að þetta er gert með kjötvöru. Við innkaup á vörum í vöruhúsin er unnið eftir ströngu kerfi til að lágmarka alla matarsóun. „Almennt séð í þeim flokki hefur okkur gengið mjög vel. Erfiði hlutinn er ferskvara með stuttum líftíma. Við lækkum verðið á kjöti 2 til 3 dögum áður en það rennur út til að lágmarka matarsóun í því,“ segir Sigurður.

Hvers vegna eru ekki vörur með áberandi afslætti í verslunum Hagkaupa sem renna út eftir nokkra daga? 

„Í ákveðnum flokkum erum við að ná betri árangri en aðrir. Að vera með fulla búð af vörum sem þú þarft að lækka ber ekki vitni um hvað þú ert góður í að reka verslanir. Kannski ertu að panta of mikið af vörum sem eru að renna út hjá þér eða kaupir mikið af röngum vörum sem seljast ekki. Í okkar úrvali reynum við að lágmarka þetta,“ segir Sigurður. 

Sigurður ítrekar að farið verði yfir stöðuna til að tryggja að þetta gerist ekki aftur og sterkur vilji sé til að bæta sig á þessu sviði.

Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa.
Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert