„Það er fáránlegt að henda því“

Ruslagámur fullur af innfluttum ostum við verslun í Reykjavík.
Ruslagámur fullur af innfluttum ostum við verslun í Reykjavík. Ljósmynd/Aðsend

Búðum ætti ekki að vera heimilt að henda mat. Stjórnvöld þurfa að fylgjast betur með matarsóun verslana og setja þeim reglur sem koma í veg fyrir að slíkt gerist. Það er gríðarlega mikil orka sem fer í að framleiða matvöru sem endar í ruslinu og er vægast sagt óumhverfisvænt. Þetta segir Davíð Hörgdal Stefánsson umhverfissinni.

Hann birti mynd á samfélagsmiðlinum Facebook nýverið af ruslagámi fullum af innfluttum ostum fyrir utan matvöruverslun í Reykjavík. Hann tekur það fram að hann hafi ekki sjálfur farið í þennan leiðangur og hirt mat úr þessum gámi en deildi myndinni á sinni síðu úr lokuðum hópi á Facebook. Hann hefur sjálfur farið nokkrum sinnum í gáma við matvöruverslanir og hirt nýtilega matvöru þaðan og hvetur aðra til slíks hins sama.

Ekkert nýtt að gámar séu fullir af mat

„Það er ekkert nýtt að gámar við verslanir séu fullir af mat. Allir meðvitaðir borgarar vita að gámar við búðir eru fullir af mat á hverjum degi og oft með matvöru sem ekki er útrunnin. Ég hvet fólk til að fara sjálft og sannreyna matarsóunina. Það er sláandi reynsla. Ég vil líkja þessu við að fara í berjamó rétt áður en næturfrostið skellur á og berjunum er bjargað frá eyðileggingu,” segir Davíð við mbl.is og talar af eigin reynslu. Hann furðar sig á því af hverju fleiri matvöruverslanir selji ekki mat á niðursettu verði sem rennur brátt út eða hreinlega gefi mat í stað þess að henda honum. Hann tekur fram að margar verslanir standa sig vel í þessum efnum en fleiri mættu gera slíkt hið sama.  

„Mér finnst verst að í hverju oststykki er brjálæðislega mikil orka sem hefur farið í að framleiða það. Það er fáránlegt að henda því,” segir Davíð og ítrekar að hver einasta arða á uppsprettu sína í auðlindum náttúrunnar. Framleiðslukeðjan er löng og nær allt frá fóðrinu sem kýrin nýtti til framleiðslunnar í útlöndum og þar til osturinn er fluttur með gámum yfir hafið til Íslands og er borinn á borð fyrir Íslendinga til að neyta. 

Skilur vel fólk sem telur þetta annaðhvort hipparugl eða viðbjóð

Davíð tekur fram að það sé félagslega erfitt að fara ofan í gám til að ná í góðan mat sem hefur verið fleygt. „Ég vil vera manneskja sem kemst yfir þennan hjalla því það er siðferðislega rétt að gera þetta og rangt að henda mat. Þetta var erfitt í fyrsta skipti en ég fór með öðrum sem hafði gert þetta áður og það hjálpaði. Þetta er gert í skjóli nætur og þú ert að skoða ofan í ruslagám. Það er auðvelt að líða þannig að maður sé að gera eitthvað sem maður á ekki að gera,“ segir hann og ítrekar að þetta sé siðferðislegt reikningsdæmi. 

Hann segist skilja vel skoðun fólks sem þyki þetta vera annaðhvort hipparugl eða viðbjóður en bendir fólki á að skoða þetta aðeins lengra en út frá því sjálfu. Í hans augum sé sú tilfinning að breyta siðferðislega rétt yfirsterkari en að koma mögulega illa út félagslega. Þess vegna vill hann grípa til samlíkingarinnar við berjatínsluna, þetta sé alveg eins. 

Ekki spurning um að borða úldinn mat

„Þetta er ekki spurning um að borða úldinn mat. Þú notar sömu rökhugsun og þegar þú kíkir inn í ísskáp og kannar hvort maturinn sem þú ætlar að borða sé í lagi,“ segir hann spurður hvort það sé ekki hætta á að maturinn sé skemmdur í gámunum.

„Með því að fara einu sinni í viku sparast þúsundir. Það væri gaman að sjá fleiri skella sér, fá sér ennisljós, hanska og poka og kíkja á verðmætin sem annars er sóað,“ segir hann.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert